132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Samningurinn um líffræðilegan fjölbreytileika.

[10:57]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka þessa umræðu þó að ég taki undir með hv. þingmönnum sem hafa saknað Framsóknarflokksins í henni. Ég verð að segja að sú fjarvera kemur mér ekki á óvart. Það kemur mér heldur ekki á óvart, frú forseti, að talsmaður Sjálfstæðisflokksins í þessari umræðu skuli ekki megna að tala um nema eitt einstakt verkefni sem má auðvitað fullyrða og taka undir að sé vel unnið, BIOICE-verkefnið. En við erum hér að tala um hlutina í stóru samhengi og hvar er formaður umhverfisnefndar? Mér er spurn.

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, auðvitað á þessi skýrsla að fara formlega fyrir umhverfisnefnd. Við eigum að kalla fyrir gesti, við eigum að spyrja spurninga og við eigum að fá að skila þessari vinnu sem umhverfisnefndin á að fá að inna af hendi inn í þingið aftur. Það er ekki forsvaranlegt annað en að Alþingi Íslendinga taki afstöðu til þeirra hluta sem hér koma fram, svo alvarlegir eru þeir, þó svo að hæstv. umhverfisráðherra telji okkur vera á réttri leið. Það er þá í hæsta lagi á hraða snigilsins.

Það má auðvitað til sanns vegar færa að snigillinn og skjaldbakan komist þangað líka, en það er ekki nógu gott í samfélagi á borð við okkar að þessi málaflokkur skuli vera jafnmikil hornreka í ríkisstjórninni og raun ber vitni. Það er heldur ekki nógu gott að ríkisstjórnin skuli snúa út úr megingildum samnings af þessu tagi með því að skilgreina t.d. hugtakið „sjálfbær þróun“ eins og það sé lesið með gleraugum þess í neðra, en skrumskælingu þess hugtaks má finna í stefnu ríkisstjórnarinnar um velferð til framtíðar sem er stefna ríkisstjórnarinnar varðandi sjálfbæra þróun. Þar halda menn því fram að stoðir sjálfbærrar þróunar séu efnahagsvöxtur og að hámörkun efnahagsvaxtar sé meginmarkmiðið.

Frú forseti. Þetta er bara reginmisskilningur og allur sá misskilningur sem ríkisstjórnin er haldin er staðfestur í þessari skýrslu. Það verður að taka til hendinni og ég treysti því að það verði gert í umhverfisnefnd Alþingis.