132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Háskólar.

433. mál
[11:31]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekki alltaf sem maður getur fagnað frumvörpum ríkisstjórnarinnar. En ég ætla að lýsa yfir sérstakri ánægju minni með að í II. kafla 3. gr. sé það undirstrikað að ríkisrekinn háskóli sé sjálfstæð ríkisstofnun. Maður hefði alveg eins getað búist við því að einhverjar háeff-tillögur væru í þessu frumvarpi. (Menntmrh.: Sem þú hefðir fagnað.) Nei, þeim hefði ég reyndar ekki fagnað, hæstv. menntamálaráðherra.

Mig langar til að fjalla aðeins um VII. kaflann 19. gr. Þar segir, með leyfi forseta:

„Nemendur, sem hefja nám í háskóla, skulu hafa lokið stúdentsprófi eða jafngildu prófi. Heimilt er háskólum að innrita nemendur sem búa yfir jafngildum þroska og þekkingu að mati viðkomandi háskóla.“

Þetta er afar mikilvægt ákvæði. Við vitum öll að þegar niðurskurður er í skólum hefur það bitnað á nemendum sem ekki hafa stúdentspróf, (Forseti hringir.) þar er fyrst skorið niður, nemendur sem ekki hafa stúdentspróf eru síður teknir inn, jafnvel þó þeir hafi ágæta (Forseti hringir.) þekkingu og menntun á öðru sviði.