132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Háskólar.

433. mál
[13:31]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp hæstv. menntamálaráðherra um ný háskólalög, sem er að mati hæstv. ráðherra heildarendurskoðun á þeim lögum. Það vekur athygli að þrátt fyrir að um heildarendurskoðun sé að ræða er skilið eftir nokkuð sem miklu máli skiptir og flestir bjuggust við að á yrði tekið í slíku frumvarpi. Svo að það fari ekki á milli mála þá er rétt að það komi fram að í lagatextanum eru margir þarfir hlutir, að flestu leyti jákvæðir og í rétta átt. Kannski mætti segja að þar sé fest í lög það sem hefur verið við lýði að undanförnu og ekkert nema gott um það að segja.

Það sem er hins vegar sérstakt er að ekki skuli tekið fyrir atriði sem margir telja að mestu skipti. Það er ekki nóg að setja rammana ef ekki er til fjármagn til að efla starfsemina og sinna eins og ramminn gerir ráð fyrir. Það er áhyggjuefni að fjárhagsmálefnin skuli ekki til umfjöllunar eins og nauðsynlegt væri. Þau koma að sjálfsögðu við sögu í frumvarpinu en hjá þeim er skautað, þ.e. að tryggja að háskólar í landinu sitji allir við sama borð. Ég held að hæstv. ráðherra og ýmsir fleiri hæstv. ráðherrar hafi sagt að það væri einn tilgangurinn með vinnunni sem fram fór við endurskoðun háskólalaganna. Við sjáum að vísu í greinargerð með frumvarpinu að nefndin sem samdi a.m.k. uppistöðu þess er enn að störfum og mun skila af sér frumvörpum um sérlög um ríkisháskóla.

Auðvitað er nauðsynlegt að hæstv. ráðherra svari við þessa umræðu hvenær von er á þeim sérlögum svo að hægt sé að átta sig á því hvaða vinnu menntamálanefnd á að leggjast í og hvort ekki sé hægt að fjalla um þetta mál samhliða. Það væri æskilegt. Ég vil spyrja, frú forseti, hvort ég hafi tekið rétt eftir áðan, að hæstv. ráðherra sé í húsi og megi hlýða á mál mitt.

(Forseti (JBjart): Forseti mun gera hæstv. menntamálaráðherra Þorgerði K. Gunnarsdóttur grein fyrir því að óskað sé eftir henni í þingsal. Hins vegar mun ráðherrann í húsi og má vænta þess að hún fylgist með ræðu þingmanns. En boðunum verður komið til skila.)

Ég þakka fyrir, frú forseti. Ég vildi aðeins fá að vita hvort hæstv. ráðherra mætti hlýða á mál mitt svo hún geti svarað spurningum sem mér finnst eðlilegt að leggja fyrir hana. Ég spurði hvað liði undirbúningi að sérlögum um ríkisháskólana, sem ég tel mikilvægt að hafa til hliðsjónar við vinnslu þessa máls. Þetta frumvarp segir jú að í þau sérlög verði m.a. sett ákvæði um greiðslur sem ríkisháskólarnir megi innheimta. Það er afskaplega mikilvægt að sú umræða fari fram samhliða umfjöllun um þetta mál. Það skiptir máli hvort hæstv. ráðherra hefur hug á að tryggja að allir háskólarnir sitji við sama borð.

Hæstv. ráðherra sagði í stuttu andsvari í morgun að að hennar mati sætu allir háskólarnir við sama borð. Það var afskaplega merkileg yfirlýsing frá hæstv. ráðherra. Hún kom mér á óvart þar sem ég hélt að það væri almennt viðurkennt að svo væri ekki. Það má skoða frá ýmsum sjónarhornum. Ég hef heyrt forsvarsmenn ríkisháskólanna halda því fram að munurinn á þeim blasi við, að þeir megi ekki taka skólagjöld sem hinir háskólarnir, sem aðrir aðilar reka, hafa heimild til að krefjast. Þau skólagjöld eru ekki dregin frá ríkisframlaginu. Svo ég einfaldi umræðu eins og hægt er þá blasir við að mati ríkisháskólanna að þeir sitja ekki við sama borð hvað þetta áhrærir.

Ég hef einnig heyrt frá forsvarsmönnum hinna háskólanna, frá þeirra sjónarhorni, að þeir telji sig heldur ekki sitja við sama borð. Sérstaklega hef ég heyrt samanburðinn við Háskóla Íslands, þ.e. varðandi fjármuni til rannsókna. Þetta verður að leysa og er ekki hægt að láta þessa umræðu sigla svona áfram. Það verður að tryggja að háskólarnir, sem eru í samkeppni og út af fyrir sig ekkert nema gott um það að segja, hafi einhvern grunn til að byggja á, að skólarnir geti treyst því að þeir sitji við sama borð í samkeppninni. En því miður er ekkert á þessu máli tekið í frumvarpi hæstv. ráðherra. Hins vegar eru boðuð sérlög um málið sem sama nefndin vinnur að. Ég endurtek því, svo tryggt sé að hæstv. ráðherra heyri það, að það er eiginlega nauðsynlegt að fram komi við þessa umræðu hvernig gengur með þá vinnu og hvort hæstv. ráðherra geti sagt okkur hvort búast megi við frumvarpi um sérlög um ríkisháskóla á þessu þingi. Menntamálanefnd gæti þá hagað störfum miðað við hvernig því máli er háttað.

Ég vakti einnig athygli á öðru máli í andsvari í morgun sem mér finnst lykilatriði að hæstv. ráðherra tjái sig um. En svo virðist sem hæstv. landbúnaðarráðherra hafi sett hnefann í borðið og sett menntamálaráðherra stólinn fyrir dyrnar hvað það varðar. Ég trúi ekki öðru en að hæstv. menntamálaráðherra hafi hug á að allir háskólar í landinu heyri undir menntamálaráðherra og spyr því hvort það sé ekki rétt metið af minni hálfu að hún hafi metnað í þá átt. En hvaða rökum beitti hæstv. landbúnaðarráðherra til að koma í veg fyrir að slíkt yrði? Ég held að það sé umræða sem einnig þurfi að fara fram.

Sé niðurstaða ríkisstjórnarinnar sú að eðlilegt sé að háskólarnir tilheyri nokkrum ráðuneytum þá hlýtur að vakna spurningin hvort ekki séu fleiri háskólar sem eigi heima undir öðrum ráðuneytum en þeir skólar sem heyra undir landbúnaðarráðuneytið. Fróðlegt væri að fá að heyra rökstuðninginn fyrir þessu þannig að við getum rætt málið örlítið nánar. En þetta vekur sérstaka athygli þegar kemur að ákvæðum í lögum um greiðsluheimildir ríkisháskólanna. Við eigum því eingöngu von á að fá inn í þingið frumvörp um þá ríkisháskóla sem heyra undir menntamálaráðherra. En það virðist ekki von á sérlögum um háskóla sem heyra undir landbúnaðarráðuneytið. Hér fer eitthvað á skjön og afar sérkennilega að að málum skuli þannig staðið að háskólar lendi í mismunandi stöðu þrátt fyrir að teljast allir ríkisháskólar.

Ekki væri síður athyglisvert og nauðsynlegt að fá fram hjá hæstv. ráðherra, sem kemur einnig fram í lagatextanum og í greinargerðinni með frumvarpinu, þ.e. að tryggja eigi, eins og hér segir, að ekki verði greidd öll sí- og endurmenntun sem fram fer í ríkisháskólunum. Þar er vísað til þess að það sé á grunni samkeppnis- og jafnræðissjónarmiða. Það er mjög eðlilegt enda er ýmislegt sem þar er boðið upp á í samkeppni við ýmsa aðra sem bjóða upp á sambærilegt nám. Það er hins vegar áhyggjuefni sem segir neðar í greinargerðinni, varðandi 21. gr., með leyfi forseta:

„Því er hér miðað við að fjárveitingar til háskóla renni fyrst og fremst til þess að greiða fyrir hefðbundið grunn- og framhaldsnám sem miðar að skilgreindum námslokum,“ og síðan er vitnað í ákvæði 7. greinar.

Hér er notað orðalagið „fyrst og fremst“ sem er vísbending um að námið sé af ýmsu tagi. Það er vert að spyrja hæstv. ráðherra hvort með því sé ekki tryggt að ekki eigi að hreyfa við því háskólanámi sem boðið hefur verið upp á, m.a. í fjarkennslu í gegnum símenntunarmiðstöðvar víða um land, sem oft á tíðum kann að vera erfitt að flokka, hvort það telst t.d. hefðbundið grunn- og framhaldsnám. Það er eiginlega nauðsynlegt að hæstv. ráðherra kveði upp úr um að enginn vafi sé á að sú stefna sem þar hefur verið rekin og margir hafa hvatt til að verði efld sérstaklega, að engan bilbug sé að finna á hæstv. ráðherra í þeim efnum. Ráðherra verður að segja það skýrt að ekki eigi að nýta ákvæðið til að skerða þá möguleika. En þau mál hafa því miður ekki verið í viðunandi farvegi. Það hefur verið afskaplega óljóst hvar kostnaður af því starfi á að lenda. Því miður eru dæmi um að kostnaður af slíku námi hafi ekki aðeins lent meira á nemendum en ef um staðarskóla væri að ræða heldur hafi sum sveitarfélög einnig komið að þeim málum. Það er að sjálfsögðu ekki skilgreint sem hlutverk þeirra en víða hafa sveitarfélög komið upp aðstöðu fyrir nemendur þannig að þeir sitji sama borð og nemendur á öðrum svæðum. En á meðan hefur ríkisvaldið komið að slíkum kostnaði annars staðar. Þannig er ekki til staðar það jafnræði sem ætti að vera. Brýnt er að á því verði tekið á og jafnræði námsmanna tryggt. Fróðlegt væri að heyra hugmyndir hæstv. ráðherra hvað þetta mál varðar.

Ég minntist á það fyrr í ræðu minni að það væri lykilatriði að samkeppnisstaða skólanna yrði sem jöfnust. Það hlýtur að vera hlutverk hæstv. menntamálaráðherra að tryggja að ríkisháskólarnir sitji við sama borð og aðrir háskólar. Umræðan um fjárhagsstöðu þeirra, sérstaklega tveggja ríkisháskóla, er kunn frá seinni árum, þ.e. Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri. Báðir þeir skólar hafa lent í að þurfa að vísa frá nemendum. Í umræðunum hefur m.a. verið vitnað til skýrslna þar sem Háskóli Íslands hefur, í tveimur úttektum, fengið sömu einkunn. Ef við tökum það saman á einfaldan hátt þá þykir furðu sæta hve góður skólinn er miðað við þær fjárveitingar sem hann fær til að sinna störfum sínum.

Það er ekkert launungarmál að Háskólinn á Akureyri hefur lent í ýmsum hremmingum vegna hins sama, þ.e. að nemendum þar hefur fjölgað mikið enda skóli í hraðri uppbyggingu. Því hefur ekki verið mætt nægjanlega með fjárveitingum. Til viðbótar hefur af hálfu skólans verið bent á að rannsóknarfjármagn til skólans hafi ekki verið í fullu samræmi við það sem ýmsir aðrir skólar hafa fengið. Færð hafa verið margvísleg rök fyrir því að þar hafi hallað á. Síðast en ekki síst hefur vakið athygli að fjárhagsstaða skólans versnar við að borga háa leigu fyrir nýtt og glæsilegt hús. Aðstaðan hefur að sjálfsögðu styrkt skólann sem slíkan en það er í raun ekki bjóðandi að ákvarðanir sem teknar voru af forvera hæstv. menntamálaráðherra skuli bitna á rekstri skólans, þ.e. að skólinn skuli borga þá leigu sem fyrir fram var vitað að þyrfti að greiða.

Það er auðvitað ekki sanngjarnt að það bitni síðan á rekstri stofnunarinnar. En þetta er mál, frú forseti,sem við munum ræða miklu betur þegar þau frumvörp sem eru kannski stóra málið gagnvart háskólastiginu, þ.e. sérlögin um ríkisháskólana, koma. Vonandi verður tekið á öllum þessum málum þar.

En ég var að vona, frú forseti, að við mundum í þessari umræðu fá að heyra að minnsta kosti hugmyndir hæstv. ráðherra um hvernig tryggja eigi að allir háskólar sitji við sama borð. Ég skildi, ef ég man rétt, ummæli hæstv. ráðherra fyrr í haust — og einnig ummæli hæstv. forsætisráðherra — á þann veg að væntanleg væru frumvörp sem mundu m.a. tryggja að allir háskólar sætu við sama borð. Ég er sem sagt ósammála hæstv. ráðherra í því að staðan sé þannig nú að allir háskólar sitji við sama borð og færði (Gripið fram í.) — já, hárrétt, hæstv. ráðherra, að hluti af fjárframlögum skólanna sitji við sama borð. Eins og hæstv. ráðherra benti á í andsvari sínu í morgun eru það auðvitað háskólarnir sjálfir sem deila fjárframlögunum út til sinna deilda. Ekki ætlum við hér í sölum Alþingis að skipta okkur af því. Það á að sjálfsögðu að vera verkefni sjálfstæðra háskóla að ákveða hvernig þeir skipta fjármunum sínum.

En þessir þættir eru stóra málið og ég geri ráð fyrir því, frú forseti, að í þeim felist vandinn þegar kemur að þeirri spurningu hvers vegna frumvarp um sérlög fyrir ríkisháskóla var ekki látið fylgja þessu frumvarpi. Það hefði verið það eðlilegasta og æskilegasta. Ég veit ekki hvar sá vandi liggur, hvort hann liggur hjá hæstv. menntamálaráðherra eða hvort hann liggur hjá öðrum hæstv. ráðherrum, en menn verða að koma sér saman um hvaða form ríkisstjórnin vill hafa á fjármögnun háskóla. Það er annars vegar mjög mikilvægt að þessi umræða fari fram en hins vegar þarf að ná miklum friði um þetta mál. Það væri æskilegt að hæstv. ráðherra — ég hafði fréttir af því rétt áður en ég fór í ræðustólinn að hún hefði enn einu sinni stigið skref í þá átt að leita samráðs. Það er auðvitað fagnaðarefni að hæstv. ráðherra skuli taka upp þau vinnubrögð að leita sátta í málum og (Gripið fram í.) reyna að vinna málin á þann hátt. Það er afskaplega mikilvægt í þeim málaflokki (Gripið fram í.) sem heyrir undir hæstv. ráðherra, þ.e. í menntamálunum. Í menntamálunum erum við að taka ákvarðanir í dag sem munu skipta miklu máli fyrir framtíðina, um slík mál þarf að ná sem allra, allra mestri sátt. Það er því fagnaðarefni að hæstv. ráðherra sé í auknum mæli að venja sig á þau vinnubrögð og ég vona að það verði á enn fleiri sviðum.

Ég sé að það er farið að styttast mjög í tímanum hjá mér. Ég held að ég noti síðustu mínúturnar til að hvetja hæstv. ráðherra til að taka slík vinnubrögð upp á fleiri sviðum. Af því að ég var hér að ræða um þetta stóra mál, hvernig við viljum haga fjármögnun háskólastigsins, þá held ég að það væri heilladrjúgt fyrir hæstv. ráðherra að setja niður þverpólitískan starfshóp eða nefnd, aukaatriði hvað við köllum það, sem færi yfir þau mál frá öllum hliðum og kæmist að niðurstöðu sem hægt yrði að ná sátt um. Eins og ég sagði áðan er augljóslega um að ræða afskaplega flókið mál sem þó er mjög brýnt að finna lausn á. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra sérstaklega til að íhuga hvort málið sé ekki af þeirri stærðargráðu að betra sé að gefa sér kannski örlítið meiri tíma til að vinna það og ná um það sátt frekar en að missa það út í einhverja stórskotahríð. Slíkt getur í fyrsta lagið tafið fyrir því að það nái fram að ganga eða þá leitt til þess að það verði keyrt í gegn í fullri ósátt og um það náist enginn friður. Skólarnir þyrftu að búa við þá óvissu að þegar næsta ríkisstjórn tekur við, sem verður væntanlega eftir afar stuttan tíma, megi þeir eiga von á því að málið verði allt saman skorið upp.

Ég held sem sagt, frú forseti, að þetta mál, líkt og það mál sem tilkynnt var um nú í hádeginu, sé af þeirri stærðargráðu að um það þurfi að ríkja víðtæk sátt. Við höfum hreinlega ekki efni á því, þegar við horfum til framtíðar, að láta menntakerfið leika á reiðiskjálfi út af því að einn vill ganga örlítið lengra en annar. Menn mega ekki missa málið út í farveg sem menn ráða ekki við og þurfa þá að semja frið um það einhvers staðar. Ég held að það sé vænlegra, þó það sé að sjálfsögðu alltaf gott að semja frið, og fagnaðarefni þegar menn ná slíku fram, að fara af stað með friðarmerkið uppi og ná samstöðu í málum en ekki byrja á því að kveikja ófriðarbál og þurfa síðan að slökkva það. Það er miklu vænlegra fyrir menntakerfið í heild sinni, og algjörlega nauðsynlegt, að við náum sem víðtækastri sátt um hin stærri mál. Fjármögnun háskólastigsins er mál af þeirri gerðinni.