132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Háskólar.

433. mál
[14:41]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vona að hv. þingmaður sé ekki að agnúast út í það að við höfum fjölgað háskólanemum. Við höfum fjölgað þeim umtalsvert og við Íslendingar þurftum á því að halda. Við þurftum að fjölga vel menntuðu fólki til að standast samkeppni á svo mörgum sviðum Okkur hefur tekist það og ég hefði frekar haldið að það væri fagnaðarefni.

Um leið er það líka fagnaðarefni að sjá þessa miklu þenslu. Það getur vel verið að um tíma hafi, ég ætla ekki að segja allt hafi farið úr böndum en þenslan hefur verið mjög mikil af því að ásókn inn í kerfið er svo mikil. En um leið höfum við veitt háskólunum tækifæri til að móta námsleiðir sínar, skólastefnu sína. Ég tel afar brýnt og mikilvægt að skólarnir fái fyrst svigrúm til þess að átta sig á og feta sig inn á nýjar brautir. En nú er komið að þeim tímapunkti sem þetta frumvarp felur í sér, við munum gera auknar gæðakröfur til háskólanna sem hafa náð að blómstra svo vel, núna þurfum við að setja skýrar, afmarkaðar gæðakröfur til þeirra um leið og við segjum að (Forseti hringir.) við viljum varðveita sjálfstæði þeirra. Það verðum við að passa sérstaklega upp á.