132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Grunnskólar.

447. mál
[15:52]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það var að vísu örlítil skýring á frumvarpinu í svari hæstv. ráðherra. Að vísu náði hæstv. ráðherra í stuttu andsvari sínu að nefna það tvennt sem virðist jákvætt í þessu frumvarpi og gæti réttlætt þessar litlu breytingar, þ..e. varðandi foreldra og nemendur. Það er hið besta mál.

En tímamótagreinin sem hæstv. ráðherra nefndi í framsöguræðu sinni, þ.e. 23. gr. er greinilega aðalmálið. Það þarf fyrir vorið, væntanlega fyrir sveitarstjórnarkosningar, að keyra það í gegn að auka útgjöld sveitarfélaganna, það hlýtur að vera tilgangurinn. Svo mikið er lagt undir að gengið er á sjálfsforræði sveitarfélaganna. Það liggur greinilega svo mikið við að gengið er gegn stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga í þessu máli. Menn ganga gegn formanni sambandsins, oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurborg. (Menntmrh.: Það er rangt.) Ja, það liggur mikið við.