132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Grunnskólar.

447. mál
[18:24]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð nú að biðja hv. þingmann að gæta hófs í orðavali því að það er nú afar óheppilegt ef hv. þingmaður er farinn að halda því fram að þeir skólar sem eru reknir af öðrum en Reykjavíkurborg hér í borginni séu verri skólar en þeir skólar sem reknir eru af sveitarfélaginu. Vegna þess að ef nemendum er mismunað og þeir sitja ekki við sama borð í þeim skólum þá eru skólarnir auðvitað verri og það gengur ekki að menn haldi slíku fram hérna. Því trúi ég ekki.

Ég hef vissulega orðið var við að einstaka aðilar hafa kvartað yfir því að þeir fengju ekki nægilegt fjármagn frá sveitarfélaginu og ég hef tekið eftir því að það hafa átt sér stað viðræður. Ég lít svo á að þetta mál snúist ekki bara um það hvað er að gerast í Reykjavík. Það er afar óheppilegt að verið sé að koma með lagafrumvörp frá ríkisstjórn eða hæstv. ráðherrum Sjálfstæðisflokksins vegna þess að þeir eru ekki í meiri hluta í einstökum sveitarfélögum. Við eigum að vera yfir það hafin. Við höfum trúað sveitarfélögunum fyrir rekstri grunnskólans og ég hélt að um það væri almenn sátt að þau hefðu staðið sig mjög vel í rekstri grunnskólans. En hér kemur fram það álit að svo sé alls ekki, Reykjavíkurborg hafi staðið sig býsna illa og þess vegna þurfi að koma með frumvarp. En þeir hafa greinilega ekki staðið sig nægjanlega illa eða þá að frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins við kosningarnar í vor eru ekki nægilega góðir, a.m.k. að áliti sumra hv. þingmanna, að ekki sé hægt að treysta þeim til þess að vinna kosningar út á þetta. Ef allar þessar lýsingar eru réttar get ég ekki trúað öðru en það sé bara vís sigurinn í kosningunum.

Einhver er efinn þegar þarf að ganga svo hart fram í þessu máli að það er valtað yfir oddvita Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórninni. Það er ekki einu sinni tekið tillit til ábendinga frá frambjóðandanum sem er þó augljóslega með ábendingum sínum að reyna að finna sáttaleið. Því það er augljóst mál að sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaga er jafnheilagur í mínum augum og Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar. En það er greinilegt að einhver hópur í Sjálfstæðisflokknum virðir þann rétt ekki og vill valta yfir sveitarfélögin í þeim tilgangi að koma fram einhverju máli sem þeim er hugleikið gagnvart einu einstöku sveitarfélagi.