132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Réttur sjúklinga við val á meðferð.

430. mál
[13:16]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Hv. 8. þm. Reykv. n. spyr um rétt sjúklings, sem haldinn er alvarlegum sjúkdómi, við val á meðferð til bættrar heilsu.

Í lögum um réttindi sjúklinga er kveðið ítarlega á um réttindi sjúklinga að þessu leyti. Í fyrsta lagi er kveðið á um að sjúklingur eigi rétt á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma er völ á að veita, þjónustu sem miðast við ástand hans og horfur á hverjum tíma og bestu þekkingu sem völ er á.

Í 5. gr. laganna er fjallað um rétt sjúklinga til upplýsinga um heilsufar og fyrirhugaða meðferð ásamt upplýsingum um framgang hennar, áhættu og gagnsemi. Varðandi fyrirspurn hv. þingmanns þá er mikilvægt ákvæði 5. gr. sem segir að sjúklingur eigi rétt á upplýsingum um önnur hugsanleg úrræði en fyrirhugaða meðferð og afleiðingar þess ef ekkert verður aðhafst.

Einnig er kveðið á um að sjúklingur eigi rétt á upplýsingum um möguleika á að leita álits læknis og annarra heilbrigðisstofnana, eftir því sem við á, um meðferð, ástand, og batahorfur. Til að tryggja þennan rétt skal samkvæmt lögunum geta þess í sjúkraskrá sjúklings að honum hafi verið veittar upplýsingar skv. 5. gr. laganna og jafnframt er tekið fram að upplýsa skuli sjúkling um leið og tilefni er til og á þann hátt og við þau skilyrði að sjúklingurinn geti skilið þau.

Í lögum um réttindi sjúklinga er einnig kveðið skýrt á um rétt sjúklings til að hafna meðferð og í 7. gr. kemur fram að enga meðferð megi framkvæma án samþykkis sjúklings, nema í tilvikum þar sem sjúklingur er ófær um að gefa til kynna vilja sinn varðandi meðferð sem telst bráðnauðsynleg.

Í 18. gr. laga um réttindi sjúklinga kemur fram að þurfi sjúklingur að bíða eftir meðferð skuli læknir sem hann leitar til gefa þær skýringar ásamt upplýsingum um áætlaðan biðtíma. Þá er skylt að gera sjúklingi grein fyrir því ef unnt er að fá þá meðferð sem hann þarfnast fyrr annars staðar.

Hv. þingmaður spyr einnig um hvað ráði því hvaða meðferð er niðurgreidd af almannatryggingum. Hér er spurt um eitt grundvallaratriði íslenska heilbrigðiskerfisins og reyndar allra vestrænna heilbrigðiskerfa sem snýst um hvernig það fé er nýtt sem varið er til heilbrigðisþjónustu. Eitt vandasamasta viðfangsefni heilbrigðisyfirvalda er að glíma við þá forgangsröðun sem felst í að ráðstafa fjármunum sem varið er til málaflokksins á hagkvæman, skynsamlegan og sanngjarnan hátt.

Reglugerð um greiðslur almannatrygginga í lyfjakostnaði fjallar um þátttöku Tryggingastofnunar í lyfjakostnaði sjúklinga. Niðurgreiðslur byggjast á því að viðkomandi sé sjúkratryggður og um sé að ræða nauðsynleg lyf sem læknir hefur ávísað og eru afgreidd í lyfjabúð eða hjá öðrum þeim sem hafa leyfi til lyfjasölu. Almenn skilyrði eru að markaðsleyfi sé fyrir lyfinu á Íslandi. Lyfjagreiðslunefnd ákveður hvort sjúkratryggingar taki þátt í niðurgreiðslu lyfja sem eru á markaði hér á landi. Ákvörðun um markaðsleyfi fyrir lyf byggjast einkum á ströngum kröfum um gæði, öryggi og verkun viðkomandi lyfs, að það hafi verið gagnreynt og gagnsemi þess sönnuð.

Samninganefnd sem skipuð er af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, semur við sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn um greiðslur fyrir unnin læknisverk, um niðurgreiðslu almannatrygginga vegna þeirra og við fyrirtæki og stofnanir vegna sambærilegrar þjónustu sem þar er veitt, eins og kemur fram í 4. tölul. 42. gr. þeirra laga. Þar segir einnig að samningar nefndarinnar skuli gerðir í samræmi við skilgreind markmið og með tilliti til hagkvæmni og gæða þjónustunnar. Í 3. tölul. sömu greinar er kveðið á um að ráðherra marki stefnu um forgangsröðun verkefna í heilbrigðisþjónustu. Honum sé heimilt að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að framfylgja stefnu um forgangsröðun og stuðla að aukinni hagkvæmni og tryggja gæði heilbrigðisþjónustu.

Það er afar vandasamt verk að útdeila takmörkuðum fjármunum til heilbrigðisþjónustu. Samninganefnd heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra stendur frammi fyrir margvíslegum álitaefnum daglega í þeim samningum sem gerðir eru fyrir hönd ráðherra. Heilbrigðisstéttir sækja mjög í að bjóða fram þjónustu sína með þessum hætti. Samninganefnd heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins þarf fyrir hönd heilbrigðismálaráðherra að gæta að því að þjónustukaup séu með þeim hætti að þau falli inn í heildarskipulag heilbrigðismála á hverjum tíma. Sýnist sitt hverjum um hvernig því er best fyrir komið. Mikið framboð er á þjónustu og stundum er framboð að auki langt umfram það sem möguleiki er á að kaupa. Eru það verkefni sem sett hafa verið í forgangsröð. Ákvarðanir um greiðsluþátttöku almannatrygginga í meðferð snúast m.a. um að stýra eftirspurn eftir þjónustu og hafa áhrif á í hve miklum mæli hún er veitt. Grundvallarsjónarmið að baki þessum ákvörðunum þurfa að byggjast á almennum rétti sjúklinga, gæðum þjónustunnar og hagkvæmni og því er meginskilyrði að ekki sé veitt fé til meðferðar nema sannað sé að hún geti skilað árangri. Ég kem nánar að því í seinni ræðu minni.