132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Réttur sjúklinga við val á meðferð.

430. mál
[13:23]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þessa fyrirspurn upp við hæstv. heilbrigðisráðherra. En það er varðandi þær upplýsingar sem liggja fyrir í lögum og þær breytingar sem ég tel nauðsynlegt að gera. Fyrirspyrjandi spyr um val á meðferð við alvarlegum sjúkdómum og þá geri ég ráð fyrir að það séu sjúkdómar sem eru ólæknandi eða á lokastigi. Það er mikill munur á hvort notaðar eru vestrænar lækningahefðir eins og lögin byggja á í dag, um að lyf eða meðferð verði að skila bata, og annars konar meðferð sem kallar fram betri líðan hjá einstaklingum. Meðferð getur skilað árangri, þó að það sé ekki til bata, ef hún skilar betri lífsgæðum og það gera mjög margar meðferðir hjá græðurum, hómópötum eða sjúkraþjálfurum.