132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Menntun leikskólakennara.

437. mál
[15:11]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Mér fannst hv. þingmaður eiginlega svara þessu sjálf. Það er ljóst að ríkisvaldið hefur fjölgað menntuðum leikskólakennurum. Við höfum fjölgað þeim. Leikskólakennurum hefur fjölgað en hvað leiðir til þess að þeir fara ekki inn í leikskólana? Það er af því að umhverfið er ekki nægilega aðlaðandi. Að fara í háskólanám og fá ekki … (Gripið fram í.) Við verðum bara að horfast í augu við blákaldar staðreyndirnar. Það þýðir ekki að segja að við þurfum að fjölga fagfólki vegna þess að við höfum gert það og munum halda áfram að gera það. Menn verða að hlusta á staðreyndirnar. Tölurnar tala sínu máli. Við erum að fjölga leikskólakennaramenntuðu fólki en áhyggjuefnið er af hverju fólkið fer ekki inn í leikskólana. Af hverju fer ekki fólkið í ríkari mæli inn í leikskólana? Það er að sjálfsögðu fyrst og fremst út af því að starfsumhverfið er ekki nægilega aðlaðandi. Þetta er staðreyndin. Tölurnar segja allt um þetta.

Ég hef rakið það áður, eins og hv. þingmaður gat um, í utandagskrárumræðum um þetta efni. Hátt hlutfall af leikskólakennaramenntuðu fólki, m.a. innan Félags leikskólakennara, starfar ekki á þeim vettvangi. Þá hljótum við að spyrja: Af hverju? Auðvitað hlýtur svarið fyrst og fremst að vera starfsumhverfið og launakjörin.