132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Skýrsla um framvindu byggðaáætlunar.

[11:08]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Það er auðvitað ekki rétt að ræða þetta efnislega núna því að við munum gera það hér á eftir. En það er einn vinkill á þessu sem ég bjóst við að hv. þm. Hlynur Hallsson kæmi inn á, hlutur sem við þurfum að fara að skoða í þinginu, þ.e. þessi mikli pappírsaustur sem hér á sér stað. Ég hefði talið eðlilegt að hæstv. iðnaðarráðherra hefði birt þessar sjö nýju línur sínar á blaði og sett síðan eina setningu þar fyrir neðan: Að öðru leyti vísast til skýrslu sem gerð var síðasta vetur. Þar með hefðum við getað sparað hér gífurlegt pappírsmagn og auðveldað okkur líka samlesturinn — ef það er rétt hjá hæstv. ráðherra að aðeins sjö línur séu nýjar í skýrslunni. Ég á nú eftir að þaulskoða þetta og get auðvitað ekki fullyrt en mér heyrðist það á hæstv. ráðherra. (Gripið fram í: … sjö?) Já, þetta eru einu góðu línurnar sem hæstv. ráðherra fann nýjar. Eru hinar kolómögulegar, eða hvað? Það væri nú fróðlegt, hæstv. ráðherra, ef hún flýtti fyrir okkur í þessari í grandskoðun, þ.e. ef hæstv. ráðherra hefur fleiri nýjar línur þótt þær séu ekki jafngóðar og þessar, og benti okkur á þær í seinni ræðu sinni á eftir sem ég vænti að hæstv. ráðherra haldi. Ég mun á eftir ræða efnislega þessar ágætu sjö línur sem hæstv. ráðherra er svona hreykin af. Ég er nú ekki jafnánægður með þessar sjö línur og hún vegna þess að auðvitað má gera ýmsar athugasemdir við þær.

Ég vona þó, hæstv. ráðherra, að fleiri línur séu í þessu vegna þess að ég verð að segja, eins og ég sagði í upphafi, að mér þykir ekki til fyrirmyndar árið 2006 að fara svo með skóga heimsins að gefa út skýrslur ár eftir ár ef það eru ekki nema sjö línur nýjar. Mun einfaldara er að setja eina línu sem vísar í hina gömlu skýrslu, hæstv. ráðherra. Ég vona að gleði þín verði meiri þegar líður á umræðuna en hún er nú. (Iðnrh.: Það byrjar bara á jákvæðu nótunum, heyrist mér.)