132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar.

456. mál
[12:51]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er hárrétt hjá hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni að ýmsar hvatir eru undirliggjandi gæti manni dottið í hug. Ég var í ræðu minni fyrst og fremst að tala um þetta frumvarp sem lýtur að því að afsala eignarrétti á vatni og landi til Landsvirkjunar og vara við því. Það ætti frekar að leigja það sem slíkt en eignarrétturinn ætti alltaf að vera í höndum þjóðarinnar.

Hitt er alveg rétt, sem hv. þingmaður benti á, að það er ásókn í raforkugeirann. Við minnumst yfirlýsingar fyrrv. eiganda ESSO, sem var að selja ESSO og lét þess þá um leið getið að næstu vænlegustu fjárfestingarverkefnin væru í orkugeiranum, í orkuverunum. Það er því alveg ljóst hvert stefnir. Hins vegar óttast ég að bæði hæstv. iðnaðarráðherra og hæstv. forsætisráðherra, ef marka má orð hans, kikni auðveldlega í hnjánum undan ásókn aðila í að komast yfir orkuverin, og ég er ekki viss um að það verði þá á háu verði.