132. löggjafarþing — 65. fundur,  13. feb. 2006.

Tæki stjórnvalda til að stuðla að lækkun matvælaverðs á Íslandi.

[15:56]
Hlusta

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Í umræðunni um matvælaverð á Íslandi hefur m.a. verið lagt út frá samanburði á matvælaverði hér á landi og í öðrum löndum. Í því sambandi hefur verið talað um svonefnt Evrópuverð á matvælum sem sé mun hagstæðara verðlag en verðlag hér á landi. En hvað er þetta Evrópuverð á matvælum? Það liggur fyrir að innan Evrópusambandsins er matvælaverð mjög mismunandi. Til dæmis er matvælaverð í Danmörku mun hærra en í Suður-Evrópu, t.d. á Spáni. Það er því óljóst hvað átt er við þegar rætt er um Evrópuverð á matvælum.

Í umræðunni er íslenskur landbúnaður gjarnan blóraböggull, talað um að landbúnaðarkerfið, tollar og innflutningsreglur séu með þeim hætti að landbúnaðarvörur séu á hærra verði hér og það sé meginorsök þess að aðrar vörur séu það líka. Þetta er að miklu leyti rangt því að mikið af landbúnaðarafurðum er flutt inn til landsins án tolla og takmarkana en er samt sem áður dýrara hér en annars staðar. Það væri fróðlegt að heyra skýringar verslunarinnar á þessum verðmun.

Íslenskur landbúnaður hefur gengið í gegnum miklar breytingar. Um er að ræða aðlögun að gerbreyttum aðstæðum frá fyrri tíð til mun frjálsari viðskiptahátta en áður. Vegna alþjóðlegra viðskiptasamninga mun samkeppni frá erlendum landbúnaðarvörum aukast og er unnið að aðlögun að þeim breytingum. Til framtíðar litið verður slík aðlögun að eiga sér stað, innlend framleiðsla er okkur mikilvæg og hún er ein forsenda matvælaöryggis og þess að við séum sjálfstæð þjóð.

Mikið hefur farið fyrir umræðu um að lækka beri virðisaukaskatt á matvæli. Vissulega er það leið en slíkt yrði að skoða vandlega til að tryggja að smásöluverð á matvælum lækkaði til neytenda en lenti ekki í vasa verslunarinnar.

Virðulegi forseti. Verðlag á matvælum endurspeglar að miklu leyti kaupgetu almennings í hverju landi. Það sýnir tölfræðin, m.a. í samanburði Evrópusambandslandanna. Ég tel að mikil kaupgeta hér á landi almennt sé einn mesti áhrifavaldur verðlags hér á landi. Getur ekki verið að það sé m.a. ein ástæða þess að landbúnaðarvörur sem fluttar eru inn frjálst og án tolla eru seldar á hærra verði hér en víða annars staðar?