132. löggjafarþing — 65. fundur,  13. feb. 2006.

Heyrnar-, tal- og sjónstöð.

514. mál
[16:17]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það fór sem mig grunaði. Við komum að fullkomlega tómum kofanum hjá hæstv. heilbrigðisráðherra þegar hann var spurður um hvað stæði á bak við orðið „hagræðing“ í málflutningi hans. Hagræðing er nefnilega orðið að frasa til að réttlæta sameiningar og nafnbreytingar af þessu tagi í opinbera kerfinu. Hæstv. ráðherra getur t.d. ekki bent okkur á stöðu sem sparast í rekstrinum. Hann ætlar að ráðast í aukinn húsnæðiskostnað og í tveggja mínútna svari sínu gat hann ekki bent á eitt einasta atriði sem hagræðing væri af. Ég spyr hæstv. heilbrigðisráðherra hvort honum sé kunnugt um að einhvers staðar í Norður-Evrópu sé þjónusta við þessa tvo hópa rekin saman með þessum hætti. Ég hef borið það undir norrænu blindrasamtökin. Þar kannast menn hvergi við að þjónustunni sé þannig komið fyrir.

Þjónustan sem Sjónstöð Íslands veitir er ákaflega góð. Fyrir hana hafa blindir og sjónskertir verið ákaflega þakklátir. Blindrafélagið er eindregið á móti því að þessar breytingar verði gerðar á starfseminni. Ég spyr þess vegna hæstv. heilbrigðisráðherra, fyrst hann getur ekki bent á neina hagræðingu af þessu, hvers vegna hann ætlar að breyta stofnun, sem mikil ánægja er með hjá notendunum, í fullri andstöðu félags þeirra.

Virðulegur forseti. Ég sé enga skynsamlega ástæðu fyrir því að leyfa ekki því sem vel er rekið, veitir góða þjónustu og ánægja ríkir með, að halda áfram að gera nákvæmlega það. Ég hélt að við ættum að leggja rækt við það, virðulegur forseti, sem vel er gert. Sjónstöð Íslands er sannarlega hluti af því.