132. löggjafarþing — 69. fundur,  16. feb. 2006.

Sveitarstjórnarmál.

407. mál
[11:16]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það gleður mig alveg sérstaklega að við hv. þingmaður skulum vera sammála um að atvinnuuppbyggingin skipti miklu máli. Það er einmitt það sem þessi ríkisstjórn hefur lagt höfuðáherslu á, þ.e. að byggja upp fjölbreytta atvinnu um landið. Ég vil geta þess að ég var í heimsókn í Fjarðabyggð í gær þar sem eru náttúrlega ótrúlegir hlutir að gerast í atvinnuuppbyggingu. Og ég heyri að við hv. þingmaður erum sammála um að það skiptir miklu máli.

Það er hins vegar eitt og sér ekki nægt, hæstv. forseti, það skiptir miklu máli að menn byggi sömuleiðis upp menningartengda þjónustu og fræðsluþjónustu, því að í mörgum tilvikum, og við þekkjum það, við hv. þingmaður og þeir sem hér sitja, á sér stað brottflutningur fólks af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins með þeim hætti að foreldrar elta börn sín sem halda til mennta. Það er eitt af því sem skiptir máli og að því höfum við verið að huga, m.a. með uppbyggingu fræðslustofnana, fjarnáms og fleiri slíkum hlutum.