132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Raforkumálefni.

348. mál
[17:17]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Í umræðu um skýrslu iðnaðarráðherra um raforkumálefni hafa menn komið nokkuð víða við. Ekki hefur aðeins verið rætt um skipulag á raforkumarkaði heldur er einnig rætt um raforkuna, til hvers hún er notuð og hvaða áform séu uppi í þeim efnum. Hæstv. iðnaðarráðherra sagði að markaðurinn kallaði á meira ál og mikill vilji væri til að svara því kalli jákvætt, ef ég heyrði rétt. (Gripið fram í.) Ég held að ég hafi skrifað þetta rétt niður eftir hæstv. ráðherra, markaðurinn kallaði á meira ál og hæstv. ráðherra hefði mikinn vilja til að svara því kalli jákvætt og vísaði reyndar til samfélagslegrar ábyrgðar okkar í þeim efnum að hér væri framleidd hrein orka og að okkur bæri að axla félagslega ábyrgð hvað þetta snertir.

Sjálfum finnst mér dæmið ekki alveg svona einfalt að ef einfaldlega kemur ákall um meira ál frá neyslusamfélagi heimsins, þá beri okkur skilyrðislaust að svara því jákvætt og fórna náttúruperlum á borð við Skjálfandafljót og jökulfljótin í Skagafirði. Ég veit ekki hversu langt menn vilja ganga til að svara álkallinu jákvætt, hvort Gullfoss eigi að fara líka í þetta jákvæða svar Íslendinga.

Það er nú svo að uppi eru vaxandi efasemdir á Íslandi um að stefna ríkisstjórnarinnar sé rétt hvað þetta snertir, og innan ríkisstjórnarinnar gætir núna vaxandi efasemda. Það hafa allir tekið eftir þeim miklu varnöglum sem Sjálfstæðisflokkurinn slær gagnvart öfgafullri stefnu Framsóknarflokksins í þessum málum því að ég held að þar sé rétt orð notað. Framsóknarflokkurinn fylgir mjög öfgafullri stefnu þegar kemur að raforkumálum og stóriðjustefnunni. Sannast sagna fannst mér nánast hlægilegt að heyra hæstv. iðnaðarráðherra halda því fram eða öllu heldur vara við því að menn gerðu of mikið úr hlut ríkisins við uppbyggingu stóriðjustefnu á Íslandi. Ég veit ekki betur en hæstv. ráðherra hafi farið í ferðir með fulltrúum álfyrirtækja víðs vegar um landið til að skoða íslenskar náttúruperlur og bjóða þessum fyrirtækjum að íhuga að nýta þær sér til hagsbóta. Þetta eru staðreyndir og við iðnaðarráðuneytið eða í tengslum við það hefur verið rekin áróðursdeild til þess að koma íslenskri orku á markað. Ég minnist t.d. andheitrar greinargerðar þar sem hvatt var til þess að rafskautaverksmiðjur yrðu reistar á Íslandi. Þetta kemur úr stofnun eða starfsemi sem tengist iðnaðarráðuneytinu. Ég held því að menn séu ekki að ganga of langt þegar lögð er áhersla á hlut ríkisins í áróðri fyrir uppbyggingu stóriðju á Íslandi og þar hefur hæstv. iðnaðarráðherra verið fremst í flokki.

Svo ég víki aðeins að öðrum þáttum sem fram hafa komið hér við umræðuna stiklaði hæstv. iðnaðarráðherra á stóru í inngangsorðum sínum og ræddi um virkjanir fyrr og nú, setti þær inn í sögulegt samhengi og skírskotaði til hagkvæmni stærðarinnar. Sannast sagna held ég að eðlisbreyting hafi orðið, liggur mér við að segja, í virkjanastefnu á undanförnum árum. Fyrr á tíð virkjuðu menn til að svara orkuþörf heimila, fyrirtækja og stóriðju í bland. Það sem breytist með Kárahnjúkavirkjun og í afstöðu stjórnvalda á Íslandi í seinni tíð er að nú er farið að virkja í þágu eins fyrirtækis og þá hljóta menn að fara að meta hlutina á öðrum forsendum. Þá verður aldrei of oft rifjuð upp sú staðhæfing stjórnenda Landsvirkjunar að þeir hefðu ekki farið í þá framkvæmd ef þeir væru að stýra sjálfstæðu fyrirtæki á markaði.

Þar kemur að enn einni staðhæfingu hæstv. iðnaðarráðherra við umræðuna. Í inngangserindi hennar, í framsöguræðu hennar sagði hæstv. ráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, að nú væri svo komið varðandi raforkumálin að þar væri allt uppi á borði, allar tölur, allir reikningar. Gætum við fengið að sjá samningana við stóriðjufyrirtækin, má ég biðja um það? Má ég biðja um þær forsendur sem Landsvirkjun byggir á þegar hún er að koma fram með staðhæfingar sínar? Það hefur verið óskað eftir því hér í þingsal að fá þær forsendur fram, fá staðhæfingarnar fram, að fá allt upp á borð. Það er einfaldlega ekki svo að þessar stærðir séu uppi á borði, þetta er rangt, þetta er röng staðhæfing hjá hæstv. ráðherra.

Enn eitt vil ég nefna í máli hæstv. ráðherra eða hvort það var í frammíkalli hjá hæstv. ráðherra eða andsvari, það var vinnuaflið. Hæstv. ráðherra sagði að það væri hið besta mál að við flyttum inn vinnuafl til þessara framkvæmda og þessarar uppbyggingar. Nú geta menn haft sínar skoðanir á því hvort æskilegt sé að flytja inn vinnuafl, svo ekki sé á það minnst þegar verið er að flytja inn vinnuafl frá mestu láglaunasvæðum í heimi og halda fólkinu á afarkjörum eins og gert var og gert hefur verið við Kárahnjúka í mjög mörgum tilvikum, menn geta haft sínar skoðanir á því. Hinu ber að halda til haga að þegar upphaflega var rætt um Kárahnjúkavirkjun og stóriðjuframkvæmdir á Austurlandi var það sagt að þetta væri til að skapa Austfirðingum vinnu. Um það var rætt bæði hér á þinginu og í þingnefndum að samkvæmt áætlunum yrði um 80% vinnuaflsins á Kárahnjúkasvæðinu og síðan einnig við framkvæmdina að lágmarki íslenskt fólk.

Síðan snýst þetta við. Ég vek athygli á að þegar stjórnvöld hrósa sér af eða leiða líkur að því að framkvæmdin kunni að vera varðandi verkþættina ódýrari en menn ætluðu þá er það vegna þess að þetta loforð var svikið. Íslendingar voru sviknir um þá vinnu vegna þess að Landsvirkjun var umhugað um það og ítalska fyrirtækinu Impregilo — þar eru nú menn ekki vandir að virðingu sinni — að flytja inn fólk frá láglaunasvæðum heimsins. (BJJ: Þar er ekkert atvinnuleysi.) Það er ekkert atvinnuleysi fyrir austan, segir hv. þm. Birkir Jón Jónsson. Ég er að vekja athygli á yfirlýsingum og fyrirheitum sem gefin voru. Það var rætt um að Íslendingum yrði séð þarna fyrir atvinnu, að gera mætti ráð fyrir að 80% vinnuaflsins yrðu Íslendingar á íslenskum launakjörum, en staðreyndin er sú að þessu var snúið á hvolf.

Mér finnst persónulega æskilegt að fólk geti ferðast landa í milli og sótt eftir atvinnu. En ég hef efasemdir um það sem stefnu einnar ríkisstjórnar að flytja láglaunafólk til landsins, ég tala nú ekki um þegar það er gert til þess að grafa undan íslenskum kjarasamningum og þar af leiðandi íslenskum kjörum. Mér fannst hæstv. ráðherra tala af undarlegri léttúð um það þegar fyrirtæki eru að hrökklast hér úr landi, þjónustufyrirtæki og framleiðslufyrirtæki, og ég vísa þar sérstaklega í hátæknifyrirtæki sem eru að færa sig frá landinu vegna þess að ytri efnahagsumgjörð er þeim ekki hagfelld og þau rekja það til stóriðjustefnunnar.

Þetta voru ýmis atriði sem fram komu í máli hæstv. ráðherra við innganginn að umræðunni. Ætla ég að víkja nokkuð að skýrslunni en mun síðan halda máli mínu áfram í seinni ræðu því að við höfum aðeins 15 mínútur til ræðunnar.

Í upphafi skýrslunnar segir m.a., með leyfi forseta:

„Markmið laganna“ — og þar er vísað í raforkulögin — „er að stuðla að þjóðhagslega hagkvæmu raforkukerfi sem efla á atvinnulíf og byggð í landinu.“

Þá spyr ég: Var eldra kerfið sem við bjuggum við þjóðhagslega óhagkvæmt? Ef það var þjóðfélagslega óhagkvæmt af hverju hefur rafmagnið þá orðið dýrara? Hér getum við vísað í fjöldann allan af úttektum, yfirlýsingum, ályktunum og viðtölum sem borist hafa í fjölmiðlum, en ég ætla að staðnæmast við Fréttablað Samtaka iðnaðarins frá því í haust, 10. tbl.

Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Veruleg verðhækkun varð á raforkuverði til allmargra iðnfyrirtækja í kjölfar markaðsvæðingar raforkusölu um síðustu áramót. Sú verðhækkun kom öllum að óvörum og var skellt á iðnfyrirtækin af fullum þunga án nokkurrar aðlögunar. Það ætlar að taka orkufyrirtækin langan tíma að laga taxta sína og þjónustu að nýju kerfi og koma með nýjar lausnir í stað þeirra sem hurfu. Lítið sem ekkert hefur verið komið til móts við fyrirtæki sem urðu fyrir hækkunum um áramót.

Samtökin iðnaðarins fagna frjálsri samkeppni en enn sem komið er virðist hún óvirk á raforkumarkaði. Þeir félagsmenn SI, sem hafa farið af stað og látið reyna á samkeppni á raforkumarkaði, hafa lítið haft upp úr krafsinu. Þeir sjá ekki samkeppni, hvorki í betra verði né aukinni þjónustu. Vilji orkufyrirtækjanna til að laða til sín nýja viðskiptavini er ekki merkjanlegur. Kerfið var illa undir þessar breytingar búið og það er áhyggjuefni að um áramót mun orkusala til fjölda smærri fyrirtækja einnig færast yfir í samkeppnisumhverfi. Til að markmið nýrra raforkulaga náist þarf að stuðla að því að raunveruleg samkeppni þrífist.“

Síðan heldur áfram, með leyfi forseta:

„Hækkun á raforkuverði kom einkum fram hjá þeim fyrirtækjum sem höfðu verið með samninga um aðra taxta …“

Svo er haldið áfram:

„Tryggja þarf samkeppni í orkusölunni sjálfri en nú er Landsvirkjun markaðsráðandi sem eini heildsalinn.“

Í þessari grein í blaðinu er vísað í þá hættu að hér skapist fákeppnismarkaður og samráð. Það er einmitt þetta sem er umfjöllunarefni Fréttablaðsins í ágætum úttektum sem blaðið gerði upp úr mánaðamótunum janúar/febrúar. Þar er vísað í fulltrúa Samtaka iðnaðarins, talsmenn Neytendasamtakanna og fleiri aðila.

Í fyrirsögn 1. febrúar segir á forsíðu, með leyfi forseta:

„Daggjald raforku hefur hækkað um 106 prósent“.

Í undirfyrirsögn segir nánar, með leyfi forseta:

„Daggjald heimila vegna raforkunotkunar hefur tvöfaldast á tveimur árum. Forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur segir raforkulögin orsaka hækkunina. Framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins segir flest fyrirtæki einnig greiða hærra verð og líkir ástandinu við samráð oíufélaganna.“

Í fréttinni segir síðan, með leyfi forseta:

„Sveinn Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir að frá því að nýju raforkulögin tóku gildi sjáist dæmi þess að raforkuverð til fyrirtækja hafi hækkað um tuttugu til þrjátíu prósent. Flest fyrirtæki greiði hærra verð fyrir rafmagnið en áður.“

Einnig er vitnað í formann Neytendasamtakanna, Jóhannes Gunnarsson, sem gagnrýnir verðhækkanir og segir að Neytendasamtökin séu sammála Samtökum iðnaðarins um að samkeppni um sölu á raforku sé ekki til staðar.

Hæstv. forseti. Ég er búinn með tíma minn. Ég mun koma að sjálfsögðu nánar inn á þessi mál og ljúka (Forseti hringir.) málflutningi mínum í seinni ræðu.