132. löggjafarþing — 72. fundur,  22. feb. 2006.

Dagpeningar til foreldra langveikra barna.

523. mál
[13:27]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég er þeirrar skoðunar að hæstv. heilbrigðisráðherra ætti að taka á sig rögg, skoða þetta mál og komast að þeirri niðurstöðu að veita eigi foreldrum langveikra barna dagpeninga sem þurfa að sækja um langan veg innan lands til læknismeðferðar. Ég held að það sé hægt að sýna fram á að þeir séu nánast í sömu stöðu og t.d. foreldrar sem fara til útlanda og fá dagpeninga.

Mér er mætavel kunnugt um að hæstv. heilbrigðisráðherra hefur tekið af skilningi á þessum málum. Á síðustu árum hafa stjórnvöld tekið betur á þessum málum, ekki síst vegna þess að í þingsölum hafa þingmenn tekið þessi mál upp af miklum krafti og hörku. En betur má ef duga skal. Mér finnst að hæstv. heilbrigðisráðherra, sem hefur öðrum ráðherrum fremur sýnt gæsku síns góða hjarta, ætti að hafa frumkvæði að því.