132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Skattaumhverfi líknarfélaga.

547. mál
[16:23]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Söndru Franks fyrir það frumkvæði sem hún hafði að því að flytja þetta prýðisgóða mál og sömuleiðis þau greinargóðu rök sem komu fram fyrir nauðsyn þess að auka skattfrelsi líknarfélaga hér á landi.

Ég gerði mér ekki grein fyrir því að íslensk félög sem starfa á þessum vettvangi stæðu svona töluvert aftar en erlend félög í Bandaríkjunum og í Evrópu. Ég hef auðvitað áður tekið þátt í slíkum umræðum, m.a. þegar samþykkt var hér umdeild breyting á erfðafjárskattslögum sem leiddi til þess að afnumin var heimild sem áður var í þeim lögum um að líknarfélög þyrftu ekki að greiða erfðafjárskatt.

Mig rak eiginlega í rogastans þegar ég las greinargerð hv. þingmanns og hlustaði á mál hennar að komast að raun um að Ísland er eina landið þar sem þekkist að einstaklingar fá engar undanþágur og enga skattalega örvun til þess að láta af höndum rakna til líknarfélaga. Það kom fram hjá hv. þingmanni að lögaðilar mega draga hálft prósent af tekjum sínum frá skattstofni til þess að leggja til félaga af þessu tagi en einstaklingar ekki neitt. Hvarvetna þar sem ég þekki til, ég bjó um stund í Bretlandi þar sem hjálparstarfsemi af ýmiss konar toga gegnir mjög mikilvægu hlutverki í samfélaginu, er reynt að örva einstaklingana til þess að láta af höndum rakna með því að ríkið greiðir á móti ákveðnar upphæðir. Í Bretlandi er það reyndar svo að maður getur greitt eða gert samning við líknarfélög til þriggja ára um að láta af höndum rakna ákveðna upphæð, hún verður að vera yfir ákveðnu lágmarki og það er ekki hátt, og ríkið lætur í reynd líknarfélögin njóta hinna skattalegu fríðinda með því að greiða beint í sjóði viðkomandi líknarfélags það sem ella hefðu verið einhver tiltekin skattahlunnindi. Þarna er um að ræða beinan hag líknarfélagsins af þessu og þetta er mjög jákvætt.

Ég held að samfélögin séu að þróast þannig að hjálparstarfsemi muni aukast og gegna vaxandi hlutverki og ég fagna því. Ég er þeirrar skoðunar að í mörgum tilvikum eigi að fela samtökum af þessu tagi aukið hlutverk bæði hér innan lands en líka í mannúðaraðstoð erlendis. Þess vegna fyndist mér vera rétt af ríkinu að bæta þetta umhverfi og horfa til annarra landa varðandi það hvernig staðan er þar.

Hv. þm. Sandra Franks rakti t.d. dæmi sem hún þekkti sjálf úr eigin starfi með samtökum hjartveikra barna. Hún upplýsti að á síðustu fimm árum greiddu þau samtök 1.700 þús. kr. í fjármagnstekjuskatt. Þetta er vafalaust ástæðan fyrir því að hv. þingmaður leggur mestu áhersluna á fjármagnstekjuskattinn. Mér finnst það ósvinna að ríkið skuli gera þetta. Hv. þingmaður taldi í reynd upp fjögur atriði sem voru öðruvísi, hún greindi frá því að hvað varðar tekjuskatt og eignarskatt gilda sömu reglur, og jákvæðar, hér á landi og erlendis, en hér greiða líknarfélög fjármagnstekjuskatt en ekki í samanburðarlöndunum. Hér hafa þau ekki undanþágu vegna virðisaukaskatts á aðföng eins og í samanburðarlöndunum, hér greiða þau erfðafjárskatt en í engu samanburðarlandanna og það sem mestu skiptir að einstaklingar á Íslandi, einu landa sem þekkist, hafa enga möguleika á að fá einhvers konar skattaívilnanir vegna framlaga til góðgerðastarfsemi.

Þetta fernt hlýtur að verða skoðað hjá hv. efnahags- og viðskiptanefnd þegar málið verður afgreitt og ég tel að hið háa Alþingi eigi að taka höndum saman um að samþykkja þetta þarfa mál. Þau félög sem mundu njóta þessa vinna starf sem ríkið hefði ella í mörgum tilvikum þurft að vinna sjálft og það er staðreynd að félög sem byggjast á hugsjónum og sjálfboðaliðastarfi nýta féð betur og vinna starfið af meiri nærfærni og alúð en opinberar stofnanir eru færar um. Þess vegna finnst mér þetta vera mjög gott mál.