132. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2006.

Strandsiglingar.

251. mál
[11:34]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður benti á að með þessari tillögu væru flutningsmenn í reynd að laga sig að þeirri staðreynd að Evrópusambandið setur ákveðnar kvaðir og reisir vissar skorður við aðferðum. Það kemur t.d. í veg fyrir þann hugsanlega gamla draum hv. þingmanns að endurreisa hið ágæta fyrirtæki Skipaútgerð ríkisins. Það er heldur ekkert að því að Vinstri hreyfingin – grænt framboð lagi sig að nýju umhverfi. Hluti af því nýja umhverfi er að þessi sterki stjórnarandstöðuflokkur býr við þá sérkennilegu staðreynd að vera harkalega andsnúinn í orði, að minnsta kosti, Evrópusambandinu, en 39% af stuðningsmönnum flokksins eru hins vegar trúandi á það sem hv. þingmaður kallaði heilaga ritningu Evrópusambandsins. Ég skil það mætavel að hv. þingmaður, eða a.m.k. sumir félagar hans, dragi svolítið úr áköfum árásum sínum á Evrópusambandið. Það gæti haft töluverð áhrif á fylgi flokksins. Er ég þó ekki að ýja að því að hv. þingmaður og félagar hans séu neinir sérstakir hentistefnumenn umfram það sem gengur og gerist í íslenskum stjórnmálum.

Það sem mér finnst líka merkilegt er að hv. þm. Ögmundur Jónasson — sem hefur nú innrætt mér allt aðra heilaga ritningu, sem sé þá að vera á móti útboðum, ég hef stundum tekið þátt í herhlaupum hans á hendur ríkisstjórninni vegna þess — flytur hér tillögu sem lýtur að útboðum. Hv. þm. Ögmundur Jónasson telur, og nú vísa ég beint í greinargerð með tillögunni, með leyfi forseta, „mikilvægt að útboð á siglingaleiðum geti hafist eigi síðar en haustið 2006.“

Þá erum við kannski komin í hring og ef ég væri grimmur og dónalegur, sem ég hef nú (Forseti hringir.) lagt af á seinni árum, mundi ég segja að hv. þm. Ögmundur Jónasson væri fulltrúi fyrir nýjan útboðsflokk. En auðvitað vitum við að svo er ekki.