132. löggjafarþing — 77. fundur,  6. mars 2006.

Skatttekjur af umferð.

[15:27]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég verð nú í upphafi svarsins að lýsa yfir aðdáun minni á reikningskunnáttu hv. þingmanns og geri því skóna að það sé rétt reiknað í svari mínu. Það er auðvitað rétt hjá hv. þingmanni að tekjur hins opinbera af alls konar bifreiðum hafa aukist talsvert á undanförnum árum. Það er í takt við þá aukningu á tekjum sem orðið hefur hjá ríkissjóði vegna þess hversu vel hefur árað, hversu hagvöxtur hefur verið mikill og hversu kaupmáttur þjóðarinnar hefur aukist mikið að undanförnu.

Eins og lesa má um í langtímaáætlun í ríkisfjármálum er gert ráð fyrir aukningu til vegamála á næsta ári en vegna hinna miklu þenslu sem hefur verið í hagkerfinu að undanförnu hefur verið minna svigrúm fyrir aðrar umsvifamiklar framkvæmdir í hagkerfinu. Þegar dregur úr þeirri þenslu er gert ráð fyrir að umsvif í vegaframkvæmdum muni aukast, eins og sjá má í langtímaáætluninni.

Aðrar ákvarðanir en þar er um að ræða hafa ekki verið teknar. Ef áætlanir ganga fram á ég ekki sérstaklega von á að breytingar verði þar á. Það eru heldur ekki uppi neinar sérstakar áætlanir um að gera breytingar á innheimtu þessara gjalda. En ég vil þó minna á að í dag er um að ræða tímabundna lækkun á olíugjaldinu sem kom til vegna þess að heimsmarkaðsverð á dísilolíu hefur verið óeðlilega hátt á undanförnum árum. Sú ákvörðun var tekin í sambandi við upptöku á nýju kerfi hvað varðar (Forseti hringir.) innheimtu af umferðinni.