132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Norræna ráðherranefndin 2005.

565. mál
[12:11]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Jónína Bjartmarz talaði á þann veg að hún teldi að áhugi á Norðurlandasamstarfinu færi vaxandi. Það er alveg rétt hjá henni. Ég var löngum ekki þeirrar skoðunar að vægi þess samstarfs væri mjög mikið í framtíðinni og það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að fyrr á árum var það nokkur lenska, þrátt fyrir alþjóðleg tengsl okkar jafnaðarmanna, að draga heldur úr því. Til að mynda var einn þekktur forustumaður í Alþýðuflokknum sem mjög talaði á þann veg. En ég er sem sagt kominn að þeirri niðurstöðu að Norðurlandasamstarfið verði í framtíðinni ein af þremur þungamiðjum í utanríkismálastefnu Íslendinga og vægi þess fari vaxandi fremur en hitt. Fyrir því eru svo sem margar ástæður en sérstaklega tel ég að það skipti miklu máli að sú greining sem er orðin á Norðurlandaþjóðunum, þar sem tvær standa utan Evrópusambandsins en þrjár standa innan þess, ráði miklu um að það sé nauðsynlegt fyrir okkur að nota vettvang Norðurlandaráðs til að samræma stefnu gagnvart ýmsum miklum hagsmunamálum sem eru ráðin til lykta innan Evrópusambandsins.

Ég tók mjög vel eftir því, þegar ég var að hefja minn stjórnmálaferil, og sumar þessara þjóða voru að ganga í Evrópusambandið, að áhugi þeirra á Norðurlandasamstarfinu dvínaði um skeið. Atgervi þeirra og orka beindist fyrst og fremst að ESB. Nú finnst mér að það sé allt annað viðhorf uppi. Það er gagnkvæmur áhugi á þessu og ég er þeirrar skoðunar að það sé Íslendingum mjög til heilla að leggja mikla áherslu á þetta. Ég held líka að Norðurlandaráð hafi tekið sér tak og það sé að verða miklu hnitmiðaðra og straumlínulagaðra en áður.