132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Norræna ráðherranefndin 2005.

565. mál
[14:18]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. umhverfisráðherra og Norðurlandamálaráðherra fyrir svörin og útskýringar m.a. á því sem ég bar hér fram. Það var komið inn á lánveitingar af hálfu Norræna fjárfestingarbankans og einkum það sem snýr að umhverfismálum. Nú er mér kunnugt um, og það hefur komið fram hér í umræðunni, að Norræni fjárfestingarbankinn hefur stært sig af því að vera umhverfisvænn og setur upp ákveðnar reglur í þeim efnum.

En ástæðan fyrir því að ég spurði hér áðan var orðalagið í skýrslu Norrænu ráðherranefndarinnar, sem hér er til umfjöllunar, en þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Mikil áhersla var lögð á að fylgja eftir þessum stórum orkuframkvæmdum,“ — þar er vísað í lánveitingar til Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja — „og ekki síst lánveitingu til Landsvirkjunar vegna Kárahnjúkavirkjunar, sér í lagi mati bankans á umhverfisáhrifum þeirra. Þá hafa umhverfisáhrif fyrirhugaðra fjárfestinga í orkugeiranum verið athuguð.“

Nú er spurningin þessi: Gengu lánveitingarnar til Landsvirkjunar vegna Kárahnjúkavirkjunar einvörðungu út á mat á umhverfisáhrifum?

Það er nú ekkert sérstaklega góð fjárfesting fyrir tvær sakir. Samkvæmt stöðlum fjárfestingarbankans lendir Kárahnjúkavirkjun í lakasta flokki, þeim flokki sem hefur mest og verst umhverfisáhrif, og í annan stað þá féll Landsvirkjun á prófinu þegar kom að umhverfismatinu. Framkvæmdin stóðst ekki umhverfismatið. En spurningin er þessi: Er hæstv. ráðherra kunnugt um það hvort það hafi verið einvörðungu (Forseti hringir.) til mats á umhverfisáhrifum? Ég get þó ekki ætlast til þess að ráðherrann hafi svör um þetta á reiðum höndum. (Forseti hringir.) En svona almennt séð vildi ég vekja athygli á þessu.