132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[13:15]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Hér hefur komið fram að þingmenn vilja að hæstv. iðnaðarráðherra sé viðstaddur þessa umræðu. Nú hef ég heyrt að hæstv. iðnaðarráðherra sé fjarri af persónulegum ástæðum sem ég vil sýna fulla virðingu. Svo getur verið og ég er alls ekki að gagnrýna fjarveru hennar af þeim sökum en ég gagnrýni stjórn þingsins fyrir að halda þá þessum fundi áfram og taka ekki tillit til slíkra aðstæðna og þeirra óska sem komið hafa fram frá stjórnarandstöðunni um að við héldum okkur við þá dagskrá sem boðuð hafði verið í upphafi þings. Samkvæmt áætlun þingsins var ekki gert ráð fyrir fundi þingsins í dag.

Það er í sjálfu sér mjög fróðlegt að verja matartímanum í að hlýða á fyrirlestra frá hv. þm. Pétri H. Blöndal um þingsköp og störf þingsins, það er alltaf gaman að sækja kennslustundir hjá honum um þau efni. En ég vil beina spurningu til hæstv. forseta: Hverju sætir það að ekki er gefið hádegishlé á þessum fundi eins og venja er til? Það er boðað til þessa fundar í dag eins og um sé að ræða venjulegan hefðbundinn þingdag og þá tíðkast að gera hlé á störfum þingsins milli kl. eitt og hálftvö og ég spyr: Hvenær stendur til að gefa hádegishlé á þessum fundi?