132. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2006.

Breytingar í nýjum vatnalögum.

[11:17]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Það er svo einfalt að það frumvarp til laga sem hér er verið að leggja fram fjalli um að færa eignarrétt á vatni frá þjóðinni til einkaaðila sem meira að segja ríkisstjórnin geti ráðstafað þar sem við á. Eins og þetta er nú er sértækur nýtingarréttur bundinn við landeigendur. Þetta vitum við.

Hæstv. forsætisráðherra segir að þetta sé alveg eðlileg og sjálfsögð breyting. Það má vel vera í hans huga. Ekki síst í ljósi þeirra orða sem hv. þm. Ögmundur Jónasson vitnaði hér til, þar sem hann vitnaði til orða Ólafs Ólafssonar sem var að selja Olíufélagið. Ég skal endurtaka það, með leyfi forseta:

„Núna metum við það svo að efnahagsástandið á íslenska markaðnum sé afar hagstætt og verður það vonandi næstu árin. Jafnframt að Olíufélagið sé tilbúið til að fara í frekari verkefni hér heima, svo sem í orkugeiranum, hvort sem það er í vatni eða rafmagni, og skapa sér nýja stöðu þar eða í smásölu eða heildsölu.“

Ég spyr forsætisráðherra: Hvers virði væru þessi orð þessa mikla athafnamanns ef lögunum verður ekki breytt? Þá er ekki hægt að selja honum vatnið. Þarna stendur einmitt hnífurinn í kúnni.

Ég leyfi mér ítrekað að spyrja forsætisráðherra: Ef þetta er engin breyting af hans hálfu, eða hann leggur þann skilning í þessar lagabreytingar að það séu engar breytingar í þeim, hvers vegna þá keyra þær hér fram í gegnum þingið á laugardegi, eins og hér sé eitthvert yfirvofandi hættuástand? Eru það kannski einhver loforð sem búið er að gefa einhverjum viðskiptamönnum? Er það hættuástandið?