132. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2006.

Framhald umræðu um frumvarp til vatnalaga.

[11:43]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Hér kom fram sú spurning hvort skynsamlegt væri að halda áfram umræðunni um vatnalögin sem nú eru á dagskrá og ég held að við ættum að vinda okkur í að ræða það mál.

Það er skylda forseta að koma því svo fyrir að tjáningarfrelsi þingmanna fái að njóta sín og í þessu tilfelli að stærstu leyti stjórnarandstöðunnar að því er virðist (Gripið fram í.) því að stjórnarþingmenn hafa frekar getað stytt mál sitt. Það er mjög nauðsynlegt að tjáningarfrelsi þingmanna fái að njóta sín í þingsal. Mér finnst að halda eigi fundum áfram þangað til stjórnarandstaðan hefur tjáð sig nægilega um málið. Ég held að við eigum ekki að gera neitt annað.

Hv. formaður iðnaðarnefndar hefur tilkynnt að hann muni kalla nefndina saman á milli 2. og 3. umr. til að ræða þau mál sem væntanlega hefur komið fram í máli þingmanna að þurfi að skoða betur. Þetta er alveg eðlilegur framgangur máls í þinginu. Forseti hefur haldið mjög vel á þessu máli og ég treysti því að svo verði áfram, eins og alltaf undir hennar stjórn, að menn fái að njóta sín í þingsalnum og ræði svo málið í nefndum og málið fái sinn lýðræðislega framgang í þinginu. Ég trúi því varla að þingmenn stjórnarandstöðunnar séu að fara fram á neitt annað en að þeir fái sinn tíma í þinginu til að ræða málið. Það er eðlilegur framgangur málsins.