132. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2006.

Framhald umræðu um frumvarp til vatnalaga.

[12:49]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vék að því í máli mínu áðan hvort ekki væri hægt að liðka fyrir þingstörfum með því að iðnaðarnefnd yrði kölluð saman og menn færu yfir þau orð sem menn hafa borið hér á milli í umræðum í morgun þannig að kannað yrði hvort rétt væri farið með það sem eignað er þeim sem tóku að sér að semja frumvarpið og komið hefur hér fram. Það breytir mjög efni málsins.

Hér hafa stjórnarliðar sérstaklega talað um það að eingöngu væri um formbreytingu að ræða. Það getur náttúrlega engan veginn verið formbreyting ef ummælin sem höfð eru eftir Karli Axelssyni eru rétt og þess vegna ítreka ég ábendingar mínar um að tíminn í matarhléi sem væntanlega verður klukkan eitt samkvæmt venju verði þá notaður til þess að iðnaðarnefndin hittist og leitað verði eftir því hvort umræddur höfundur frumvarpsins geti komið til viðræðu við nefndina. Það held ég að yrði til að liðka fyrir þingstörfum og koma þeim væntanlega betur áfram en verið hefur undanfarna daga.

Síðan mundi ég spyrja núverandi sitjandi forseta hvort hún hafi hugmynd um það hvenær áætlað er að þingfundi á þessum degi ljúki. Þannig stendur á fyrir þeim sem hér er að eitt af 12 barnabörnum mínum á afmæli í dag og ég hafði hugsað mér að reyna að vera þar. Það væri fróðlegt fyrir mig að vita hvort til stendur að vera hér fram á kvöld. Ég mundi þá láta vita af því að ég mundi ekki mæta í veisluna og veita forseta þá ánægju að vera hér viðstaddur áfram. Er kannski annars hugsanlegt að þessum fundi ljúki klukkan þrjú eða fjögur? Þetta er bara spurning út frá mínu hjarta, hæstv. forseti, (Gripið fram í.) og mér þætti vænt um að forseti gæti upplýst þann sem hér stendur um það hvað þessum fundi muni fram líða.