132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[12:07]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Um sjálft vatnalagafrumvarpið er ekkert samkomulag. Það sem samist hefur um er að þetta meingallaða og stórvarasama frumvarp verði ekki að lögum í vor. Gildistaka laganna hefur verið færð til haustsins 2007, hálfu ári eftir næstu alþingiskosningar. Þá gefst nýrri ríkisstjórn kostur á að afnema lögin og má öllum vera augljóst að Vinstri hreyfingin – grænt framboð mun róa að því öllum árum að svo verði gert. Þannig verður það undir kjósendum í næstu alþingiskosningum komið hvort þetta makalausa lagafrumvarp ríkisstjórnarinnar verður nokkurn tíma að lögum. Ég vona að svo verði ekki og hef reyndar sannfæringu fyrir því sjálfur að vatnalögin verði aldrei meira en umdeilt lagafrumvarp sem að forminu til var gert að lögum um stundarsakir, lögum sem aldrei tóku gildi. Ég heiti á kjósendur í næstu alþingiskosningum að minnast þessa.