132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[14:27]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef hugsanlega ekki talað nógu skýrt áðan, það má það vel vera, ég man ekki nákvæmlega hvernig ég orðaði það, en stjórnarliðar hafa aldrei sagt að þeir ætli að einkavæða, það var það sem ég meinti. En það sem er þetta frumvarpi gerir er að það opnar fyrir einkavæðingu. Síðan horfum við á gjörðir og stefnuskrá ríkisstjórnarinnar sem er að einkavæða. Hv. þingmenn ríkisstjórnarinnar hafa aldrei komið fram og sagst ætla að einkavæða, þeir hafa þeir aldrei gert það, en frumvarpið ýtir undir það, hjálpar til við það og stefna ríkisstjórnarinnar í svo mörgum málum hvað varðar ríkisstofnanir og almannaþjónustustofnanir er í þá átt að hlutafélagavæða eða einkavæða fyrirtækin. Maður dregur því þessa ályktun. En hv. þingmenn ríkisstjórnarinnar hafa aldrei komið og sagt: Við ætlum að einkavæða. Það er alveg rétt. Þeir hafa aldrei gert það. En hvernig á maður að álykta annað þegar verið er að færa þetta í þann búning að það sé auðveldara að gera það.

Varðandi túlkun á nýtingarréttinum og varðandi þá dóma sem fallið hafa, en eins og ég sagði áðan hafa þessir dómar því miður ekki verið taldir upp, þá tel ég að dómahefðin byggist á málum sem hafa verið svo smá í sniðum fram til þessa. Það er alveg ljóst að nýtingarréttur bænda er það sterkur að þeim hefur verið dæmdur nýtingarrétturinn eins og um eignarrétt væri að ræða. En fram undan eru miklu stærri mál í pípunum þannig að það verður örugglega flóknara fyrir lögfræðinga og dómara að komast fram úr því.