132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[14:39]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég mun ekki halda langa ræðu enda samkomulag milli flokkanna um málsmeðferð sem sannarlega skiptir máli um framgang þessa máls í þinginu og ásættanlega niðurstöðu í ljósi þeirrar stöðu sem málið var komið í. Þetta samkomulag gerir mögulegt og gefur svigrúm til að ná sátt um það. En þó skal undirstrika að enn er mikill ágreiningur milli stjórnarandstöðu og stjórnarliða um frumvarpið sem við ræðum þrátt fyrir það samkomulag sem hér hefur verið gert.

Vatnalögin frá 1923 eru afar merkileg lög og vel þarf til þess að vanda ef að setja á nýja löggjöf sem leysir þau af hólmi og brýnt að við slíka lagasetningu hafi menn í huga að núverandi vatnalög voru á sínum tíma heildarlöggjöf um vatnsréttindi. Það er auðvitað rétt sem fram kemur í þessu umdeilda frumvarpi að á þeim tíma sem liðinn er frá setningu vatnalaga hafa orðið miklar samfélagsbreytingar sem og tækniframfarir og vægi umhverfisnefndar hefur aukist til muna. Þess frekar er nauðsynlegt að hafa heildarsýn á málinu en við í stjórnarandstöðunni höfum lagt áherslu á að Alþingi fjalli einnig samtímis þessu frumvarpi um Evróputilskipun um vatnsvernd og um frumvarp um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum. Því náðist vissulega áfangasigur í því efni í samkomulagi milli flokkanna í gær þar sem nefnd sú sem skipa á til að skoða lagarammann kringum vatn og vatnsréttindi mun fjalla um Evróputilskipun um vatnsvernd og frumvarpið um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum þannig að heildstæð mynd og samræmi sé í þessum lagabálkum sem fjalla um vatnsréttindi.

Minni hluti iðnaðarnefndar hefur einmitt líka vakið sérstaka athygli á því að lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu sem afgreidd voru fyrr á þessum vetri voru aðeins bráðabirgðalausn til mjög skamms tíma og afar mikilvægt er að öll þau meginlög sem fjalla um eða koma í stað gildandi vatnalaga séu undir í samræmdri lagasetningu um málið. Jafnframt hefur verið vakin athygli á því að ekki verður mögulegt að ljúka umfjöllun um frumvarp um jarðrænar auðlindir fyrr en fyrir liggja tillögur þeirra nefnda sem gert er ráð fyrir að fjalli um framtíð þjóðarauðlinda og meðferð þeirra ásamt því hvernig valið verði milli þeirra sem sækjast eftir rannsóknar- og nýtingarleyfum til orku- og auðlindanýtingar. Á þessu er tekið í því samkomulagi sem gert var í gærkvöldi. Þar segir: „Í starfi sínu skal nefndin hafa til hliðsjónar tillögu nefndar iðnaðarráðherra sem skipuð er á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða við lög nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, svo sem þeim hefur verið breytt á yfirstandandi þingi.“

Það hefur einnig verið bent á að ýmis lög verði að skoða í samhengi við þessa lagasetningu eins og t.d. lög á sviði umhverfisréttar sem taka til mengunar vatna og einnig sérlög sem sett hafa verið um vatnsveitur sveitarfélaga. Allt þetta ber að skoða í heild sinni því að þau mörgu og víðtæku ákvæði um vatn og rétt almennings og einstaklinga til að nýta það fólust flest í þeim merka lagabálki sem vatnalögin frá 1923 voru sem nú á að fella úr gildi. Það sem er athyglisvert í þessari umfjöllun og fram kemur í nefndaráliti minni hlutans er að skýrt hefur komið fram á fundum iðnaðarnefndar með umsagnaraðilum og sérfræðingum að ekki væru uppi sérstök vandamál sem gerðu það að verkum að hraða þyrfti endurskoðun laganna. Því er það mjög gott að samkomulag náðist um að fresta gildistöku á þessum lögum þannig að hugsanlega væri hægt að breyta þeim áður en þau taka gildi.

Einnig er mikilvægt, sem ýmsir hafa bent á, að festa í stjórnarskrá að aðgangur af drykkjarvatni teljist mannréttindi og að eignarhald á vatni sé sameign þjóðarinnar og bundið í stjórnarskrá lýðveldisins. Þetta tel ég afar mikilvægt ákvæði og nú þegar nefnd er í gangi til að endurskoða stjórnarskrána er mjög mikilvægt að þetta sé tekið til sérstakrar skoðunar og reynt að ná samstöðu um að setja slíkt inn í stjórnarskrána. Á þetta hafa m.a. BSRB ef ég best man og ef til vill fleiri af þeim félagasamtökum sem hafa ályktað um vatn fyrir alla, lagt áherslu.

Í þeirri löngu umræðu sem hér hefur staðið í marga sólarhringa á Alþingi endurspeglast ágreiningur um grundvallaratriði um nýtingar- og eignarrétt á þeirri dýrmætu auðlind sem vatnið er og ef reynt er að skoða þennan ágreining og það sem að baki honum liggur, m.a. hvort um sé að ræða formbreytingu eða efnisbreytingu eins og hér hefur verið tekist hart á um, þá hljóta menn að leita aftur í lögin frá 1923 og skoða þau vel. Hvaða hugmyndir lágu þar að baki, hverjar voru skoðanir manna? Var verið að taka upp eignarréttinn með þeirri lagasetningu frá 1923? Hefur hann verið í gildi öll þessi ár? Er hér bara um formbreytingu að ræða eða er um efnisbreytingu að ræða á því frumvarpi sem við hér fjöllum um? Í mínum huga er ekki vafi að hér er um mikla efnisbreytingu að ræða sem best sést á því að skoða 1. gr., markmiðsgreinina, þar sem sagt er, með leyfi forseta:

„Markmið laga þessara er skýrt eignarhald á vatni, skynsamleg vatnsnýting og hagkvæm og sjálfbær nýting vatns.“ En þarna segir: „skýrt eignarhald á vatni.“ Ef 2. gr. í því frumvarpi sem við fjöllum um hér er borin saman við vatnalögin frá 1923 þá er þar auðvitað um grundvallaratriði að ræða og ætla ég að lesa þær greinar saman. Í vatnalögunum frá 1923 segir, með leyfi forseta:

„Landareign hverri fylgir réttur til umráða og hagnýtingar því vatni, straumvatni eða stöðuvatni, sem á henni er, á þann hátt, sem lög þessi heimila.“

Hér er talað um umráð og hagnýtingu á því vatni, straumvatni eða stöðuvatni sem á henni er.

En í frumvarpinu umdeilda stendur, með leyfi forseta:

„Lög þessi taka til alls rennandi eða kyrrstæðs vatns á yfirborði jarðar og neðan jarðar, í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi, að svo miklu leyti sem önnur lög gilda ekki hér um.“

Í vatnalögunum sem Alþingi samþykkti árið 1923 eftir miklar umræður segir að „landareign hverri fylgir réttur til umráða og hagnýtingar því vatni, straumvatni eða stöðuvatni, sem á henni er, á þann hátt, sem lög þessi heimila.“ En í frumvarpinu nú er tekist á um það ákvæði sem segir að „fasteign hverri, þar með talið þjóðlendu, fylgir eignarréttur að því vatni sem á henni eða undir henni er eða um hana rennur.“

Virðulegi forseti. Ég sé ástæðu til að fara alveg aftur til ársins 1923 og skoða hvað þingmenn höfðu þá um þetta umdeilda ákvæði í 2. gr. að segja. Í fyrstu vil ég vitna í samantekt í grein eða skýrslu Sigurðar Gizurarsonar þar sem hann lýsir aðdragandanum að setningu vatnalaganna, Fossanefndin 1917–1919, og þar er kafli þar sem lýst er lagasetningunni frá 1923. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þótt meiri hluti deildarinnar styddi frumvarp stjórnarinnar var þó samþykkt breytingartillaga Bjarna Jónssonar frá Vogi og Jóns Þorlákssonar við 2. gr. þess.“ — Þetta er grundvallaratriði. — „Hún fól í sér frávik frá upphaflegri gerð textans, sem hafði verið orðaður á þá lund, að landeigandi ætti hvers konar nytjar vatns „með þeim takmörkunum sem lög, venjur, samningar eða aðrar heimildir hafa í för með sér.“ Orðalaginu var breytt á þann veg, að landeigandi ætti rétt til umráða og hagnýtingar“ — ekki eignarrétt — „yfir vatni á landi sínu „á þann hátt sem lög þessi heimila.““

Það sem er merkilegt í þessu, virðulegi forseti, er að aðaltalsmaður minni hluta fossanefndar var aðaltalsmaður þess að inn í lögin kæmi eignarréttarákvæði eða eignarhald á vatni, en hér er sagt, með leyfi forseta, eftirfarandi: „Þetta“ — þ.e. þessa breytingu á 2. gr. sem meiri hlutinn lagði til, Bjarni Jónsson frá Vogi og Jón Þorláksson — „tók Sveinn Ólafsson í Firði mjög óstinnt upp og kvað hér um að ræða slíka grundvallarbreytingu á frumvarpinu, að kippt væri lagastoðum undan einkaeignarrétti á vatni.“

Ég spyr, virðulegi forseti: Getur það sem hér er sagt verið skýrar? Fram kemur breytingartillaga frá Bjarna Jónssyni frá Vogi og Jóni Þorlákssyni við þessa umdeildu 2. gr. þar sem átti að kveða á um eignarhald á vatni og breytingartillagan er samþykkt og hér segir, með leyfi forseta:

„Hún fól í sér frávik frá upphaflegri gerð textans, sem hafði verið orðaður á þá lund, að landeigandi ætti hvers konar nytjar „með þeim takmörkunum sem lög, venjur, samningar eða aðrar heimildir hafa í för með sér.“ Orðalaginu var breytt á þann veg, að landeigandi ætti rétt til umráða og hagnýtingar á vatni á landi sínu „á þann hátt sem lög þessi heimila.““

Þetta tók talsmaðurinn, Sveinn Ólafsson, mjög óstinnt upp og taldi að hér væri um slíka grundvallarbreytingu á frumvarpinu að ræða að kippt væri lagastoðum undan eignarrétti á vatni. Hvað segir svo þessi talsmaður meiri hlutans og aðaltalsmaður þess að koma eignarhaldinu inn í frumvarpið árið 1923? Hvað sagði hann á þingi um þetta mál? Ég skal vitna orðrétt í það, virðulegi forseti. Þetta var við 3. umr. um lagasetninguna á vatnalögunum. Þar eru umræðurnar í Alþingistíðindum og þar talar framsögumaður meiri hlutans, Sveinn Ólafsson. Hann segir, með leyfi forseta:

„Af því að hér er ráðgerð úrslitaumræða um vatnamálið í deildinni, verð ég að gera nokkrar athugasemdir við það. Ég mun greiða atkvæði á móti því að það verði afgreitt og tel réttara að það bíði betri tíma.“

Sem sagt, aðaltalsmaðurinn varðandi eignarhald taldi rétt að málið biði betri tíma og heldur síðan áfram, með leyfi forseta: „Þetta er afleiðing af skemmd, sem er á 2. gr. frumvarpsins við 2. umr. hér. Greinin skilgreindi áður eignarrétt landeigandans að vatnsréttindum og endimarkaði hann, líkt og gert er í vatnalögum allra Norðurlandaþjóða, en breytingin tók þá skilgreiningu burtu.“ — Þ.e. varðandi eignarhaldið og í staðinn kom umráða- og nýtingarrétturinn. — „Afleiðingin er að lögin eru orðin ósamræmileg við 2. gr. og svara ekki til fyrirsagnarinnar“. — Og hann leggur til að heiti frumvarpsins verði „frumvarp til laga um takmörkun á umráðarétti yfir vatnsréttindum.“

Ég hefði haldið að þetta væri ákveðin lögskýring varðandi það hvað menn eru að deila um fram og til baka, hvort þetta sé form- eða efnisbreyting. Vissulega er þetta efnisbreyting, menn þurfa ekki annað en bera saman 1. og 2. gr. frumvarpsins og 1. og 2. gr. vatnalaganna og fara svo í lögskýringar hvað aðaltalsmaður þess hóps taldi, þ.e. meiri hlutans sem vildi eignarréttarákvæðið inn, hann taldi að búið væri að vinna skemmdarverk á frumvarpinu með því að taka eignarhaldið út úr frumvarpinu og í staðinn væri kominn umráða- og nýtingarréttur. Þetta er það sem við höfum verið að halda fram að sé grundvallarbreyting á því frumvarpi sem við fjöllum um. Þetta finnst mér vera aðalatriði málsins þegar við erum að fjalla um form- eða efnisbreytingu í frumvarpinu.

Ég nefndi áðan og hefði viljað sjá það í samkomulagi milli flokkanna að náðst hefði samstaða um að setja inn það ákvæði í stjórnarskrána sem ég nefndi og þá tel ég að menn eigi að hafa til hliðsjónar yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna þar sem segir, með leyfi forseta:

„Eins og varðar önnur mannréttindi, þá hafa ríki skyldu til að virða, vernda og koma í framkvæmd þessum réttindum. Með því að þau virði þau, skulu stjórnvöld t.d. eigi aðhafast nokkuð sem neitar einhverjum um eða hamlar jöfnum aðgangi að drykkjarvatni og ekki eiga aðild að neinu sem með ólögmætum hætti kann að menga drykkjarvatn.“

Virðulegi forseti. Það verður aldrei fram hjá því litið og það verðum við að hafa í huga við frekari umfjöllun þessara mála að vatnið er ein af okkar helstu og mikilvægustu auðlindum en skortur á vatni er eitt helsta vandamál mannkynsins í dag. Þess vegna er náttúrlega eðlilegt að tekist sé á um þessa miklu auðlind hvarvetna í heiminum. Vatn á að vera, eins og aðrar auðlindir, sameign okkar landsmanna þar sem forréttindi fárra eða sérhagsmunir eiga ekki að vera í forgangi heldur almannahagsmunir. Það er auðvitað óþolandi að auðmenn, innlendir og erlendir, sem við höfum frétt um og lesið nýlega um í blöðum, séu að sækjast eftir og kaupa upp landeignir til að geta m.a. hagnast á vatni sem er á landareignum. Það á að vera almannaeign en ekki eign fárra auðkýfinga. Þetta hefur m.a. Páll Hannesson sagt, talsmaður þeirra fjölmörgu félagasamtaka sem standa að ályktuninni um vatn fyrir alla, að vatnið sé ekki verslunarvara heldur gæði sem allir eiga að hafa aðgang að.

Meira en milljarður manna hefur mjög takmarkaðan eða engan aðgang að hreinu drykkjarvatni og um 2,5 milljarða manna skortir vatn til hreinlætis. Vatnsskortur er ein helsta orsök fátæktar og sjúkdóma í heiminum. Það hefur einmitt verið vitnað til þess hvaða áhrif ferskvatnið hefur á matvælaframleiðsluna og þörfin mun aukast um meira en 50% á næstu 30 árum en nú erum við að nota um 70% af ferskvatni til matvælaræktar. Vatnsbirgðir heimsins aukast ekki þó að íbúum jarðarinnar fjölgi og verðmæti vatnsins mun því sífellt verða meira og meira. Það verður að verja þessa miklu auðlind okkar Íslendinga hér á landi fyrir atgangi og ásælni gróðaaflanna. Það segir sína sögu að þar sem vatn er af skornum skammti hefur komið til stríðsátaka vegna ágreinings um aðgang að vatni og því hefur m.a. verið haldið fram að stríðsátök þessarar aldar munu frekar snúast um vatn en olíu og það þýðir auðvitað að verulegu máli skiptir hvort vatnið er í almannaeign eða einkaeign.

Ingibjörg E. Björnsdóttir hefur sagt að ef vatnsauðlindir Íslands verði hins vegar einkavæddar skapist sú hætta, að þær verði seldar erlendum aðilum sem búa kannski við vaxandi vatnsskort í sínum heimalöndum. Slík sýn, virðulegi forseti, er auðvitað ógnvekjandi.

Páll Hannesson hefur haldið því fram að frumvarp um vatnalögin geri ráð fyrir að umráðaréttur landeigenda á vatni breytist úr nýtingarrétti í kláran eignarrétt, eins og við í stjórnarandstöðunni höfum haldið fram og um það hefur verið tekist í þingsölum á síðustu dögum í ítarlegum umræðum. Athyglisverðar ræður hafa m.a. verið fluttar á síðustu dögum í þinginu um hvaða afleiðingar það hefur ef vatn er einkavætt og vitnað til Bretlands í því sambandi. Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir og hv. þm. Valdimar Leó Friðriksson hafa vitnað m.a. í breskan prófessor sem nefndi sem dæmi að í Frakklandi sé einkavatnið 15% dýrara en almannavatnið og í Manilla á Filippseyjum hefur verðið hækkað um 600% í höndum einkafyrirtækja á aðeins örfáum árum.

Virðulegi forseti. Í þessari orrahríð á Alþingi er tekist á um grundvallaratriði. Tekist er á um eignarhald, nýtingarrétt og verndun auðlinda. Málið snýst um þá auðlind sem er vatnið og hún komist ekki í hendur fárra aðila eins og gerst hefur með fiskinn í sjónum. Það er kjarnaatriði, virðulegi forseti.