132. löggjafarþing — 87. fundur,  16. mars 2006.

Munnleg skýrsla utanríkisráðherra um varnarviðræður Íslands og Bandaríkjanna.

[12:12]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það má með sanni segja að við séum að upplifa sögulega stund núna. Hér er að ljúka ferli sem fór af stað þegar Þjóðverjar gerðu innrás í Noreg og Danmörku vorið 1940 og Bretar svöruðu með þeim varnarleik í stöðunni að hernema Ísland til að vernda siglingu skipalesta á milli Bandaríkja Norður-Ameríku og Evrópu, til að vernda skipalestir sem sigldu frá Bandaríkjunum og Bretlandi gegnum Ísland norður á bóginn til Norðvestur-Rússlands. Þetta hélt síðan áfram með hernámi Bandaríkjamanna og þeir hafa verið hér allar götur síðan og ekki síst á árum kalda stríðsins.

Frjálslyndi flokkurinn hefur alltaf stutt af heilum hug veru Íslendinga í NATO. Við teljum að það samstarf hafi verið ákaflega farsælt fyrir þjóðina og mjög mikilvægt. Ég vil nota þetta tækifæri til að minna á að við Íslendingar höfum allar götur frá 1949, þegar við gerðumst aðili að NATO, verið mjög tryggir og trúfastir, unnið þar af heilindum. Hvorki Bandaríkjamenn né aðrar bandalagsþjóðir hafa nokkuð upp á okkur að klaga í þeim efnum, alls ekki. Mér finnst að ríkisstjórn Íslands eigi núna að benda bandalagsþjóðum okkar í NATO á þá staðreynd. Við eigum það hreinlega inni hjá þeim að þeir yfirgefi okkur ekki núna. Þá er ég að tala um Evrópuþjóðirnar innan NATO.

Bandaríkjamenn eru farnir. Það hefur lengi verið ljóst að þeir væru á förum og ég hef ítrekað varað við því að það mundi gerast. Þegar ég var nýsestur inn á þing sumarið 2003 varpaði ég strax upp hugmyndum um það að við Íslendingar yrðum að fara að leita leiða til að athuga hvort ekki væri fyrir hendi einhver grundvöllur til að ná samningum við Evrópuþjóðir NATO um áframhaldandi varnarsamstarf og viðveru NATO-liðs hér á landi, annaðhvort NATO-liðs eða búnaðar.

Ég hef margoft síðan borið fram spurningar um það í ræðustól hvort íslensk stjórnvöld væru að athuga þessa möguleika. Ég hef aldrei fengið nein svör og ég hef enga ástæðu til að ætla að nokkur vinna af þessu tagi hafi farið fram. Nei, íslenska ríkisstjórnin hefur valið þann kost að binda sig á klafa Bandaríkjamanna og fylgt þeim í blindni, meira að segja þegar innrásin í Írak var gerð. Þá er ekki annað að sjá en ríkisstjórninni hafi verið talin trú um það að ef hún mundi skrá okkur Íslendinga á lista hinna staðföstu þjóða þá skyldu þessar fjórar herþotur verða hér áfram, þá skyldi áfram vera mannafli á Keflavíkurflugvelli. Þetta var í aðdraganda alþingiskosninganna vorið 2003 og ég minni á þetta því í dag hefur heldur betur komið í ljós að þessir silfurlituðu blóðpeningar, sem greiddir voru af hálfu Bandaríkjamanna til íslensku ríkisstjórnarinnar, og hafa dregið nafn okkar Íslendinga niður í svaðið, voru innistæðulausir.

Nú koma þeir og segja okkur að þeir hafi fengið símtal í gær, það hringdi síminn vestan frá Washington. Þar var okkur tilkynnt að nú séu þeir farnir og með þessa niðurlægingu sitjum við Íslendingar núna. Fimmtíu ára varnarsamstarfi lýkur með einu símtali vestan úr Washington og svo er skellt á. En áfram ætlar ríkisstjórnin að halda með betlistafinn í hendi. Nú á að reyna til þrautar og skrifa bréf til Bush og það á að spyrja hann, eins og hæstv. forsætisráðherra sagði hér áðan, um nánari útlistun á öryggis- og varnarmálum íslensku þjóðarinnar. Hvers konar aumingjaskapur er þetta eiginlega? Hvernig væri nú að fara að standa í lappirnar gegn Bandaríkjamönnum, segja þeim að við séum frjáls og fullvalda þjóð. Við erum fullgildir meðlimir í NATO, við höfum ávallt staðið okkar plikt í NATO, ávallt. Hvernig væri að segja þeim þetta með skýrum hætti? Hvers virði er þessi varnarsamningur? Ég held að hann sé ekki pappírsins virði. Er ekki kominn tími til að þessi samningur verði hreinlega settur í pappírstætarann og honum eytt og við förum frekar að leita leiða um samstarf við aðrar NATO-þjóðir? Ég held að þetta hljóti að vera lausnin og eins og ég sagði í upphafi máls míns: Við eigum það inni hjá þeim.

Þó að það sé friðsælt í Norður-Atlantshafi núna þá er ekki víst að svo verði um allan aldur. Ástandið í öryggismálum heimsins getur breyst mjög fljótt. Við skulum muna það að Ísland er enn á sama stað á hnettinum og það var fyrir 60 árum. Við erum stór eyja í miðju Norður-Atlantshafi og það geta orðið viðsjárverðir tímar í Norðurhöfum. Rússar eru enn á sínum stað. Það er ekki langt síðan þeir voru hér með mjög stóran herskipaflota sem lá nánast uppi í fjörusteinunum vikum saman, flugmóðurskip, beitiskip, hugsanlega með kjarnorkuvopn um borð. Þeir hafa enn þá áhuga á þessu svæði. Ég get heldur ekki ímyndað mér annað en að Evrópuþjóðir NATO hafi einnig áhuga á því að hafa ítök hér í Norður-Atlantshafi, Bretar, Norðmenn, Danir, Þjóðverjar. (Gripið fram í: Lúxemborg.) Þetta eru staðreyndir málsins og við eigum að nota þessi spil. Þetta eru þau spil sem við höfum á hendi í stöðunni núna.

Ég sé fyrir mér að við Íslendingar gætum núna þurft að grípa til þess að efla og þjálfa íslenskar sérsveitir sem væru til staðar hér. Þetta yrði gert í samstarfi við NATO. Hér yrði komið upp ákveðnum viðbúnaði, mannvirkjum sem NATO-herir gætu gripið til ef í harðbakkann slær og þá er ég að tala um NATO-heri í Evrópu. Hingað gæti borist liðsauki á viðsjárverðum tímum með skömmum fyrirvara, til að mynda frá Noregi, Danmörku og Skotlandi. Það er ekki lengi verið að fara þennan veg.

Landhelgisgæsla okkar Íslendinga gæti fengið aukið hlutverk, til að mynda í samstarfi við NATO við gæslu og eftirlit, ekki bara í íslenskri lögsögu og á hafsvæðunum í kring heldur hugsanlega líka í íslenskri lofthelgi. Við skulum athuga það að íslensk lofthelgi er mjög stór og um hana fer mikil umferð farþegavéla á hverjum degi, yfir Norður-Atlantshaf. Íslensk efnahagslögsaga er líka mjög stór og um hana fer mikilvæg skipaumferð. Þarna þarf að halda uppi ákveðnu öryggishlutverki, ákveðnu eftirliti, og þetta þurfum við að segja NATO-þjóðunum.

Það hefur svo sem ekkert upp á sig, virðulegi forseti, að vera að eyða dýrmætum mínútum í það að skamma ríkisstjórnina meira en orðið er. Hún hefur staðið sig afleitlega í þessu máli. Hún hefur sofið á verðinum, því miður. Núna verðum við öll að leggjast á árar um það að horfa til framtíðar. Við þurfum að velta því vel fyrir okkur hver staðan er. Við verðum að reiða okkur á okkur sjálf og við verðum að standa í lappirnar. Við þurfum ekki að skammast okkur fyrir nokkurn skapaðan hlut. Við erum fullvalda og sjálfstæð þjóð í samfélagi þjóðanna og það eigum við að segja og bera höfuðið hátt. Við verðum að líta til framtíðar og vega það og meta núna, og gera það hratt, hvernig við ætlum að vinna úr þessari stöðu.

Við þurfum að hugsa til þess að það er fólk á Suðurnesjum, fleiri hundruð manns, sem núna munu missa sín störf og það gerist á þessu ári. Vélarnar fara í haust. Sennilega er búið að skrifa fyrstu uppsagnarbréfin nú þegar. Hvað ætlum við að gera fyrir þetta fólk? Eitthvað af þessu fólki mun sennilega fá vinnu áfram á vellinum en aðrir verða að leita eftir vinnu annars staðar. Þarna hljóta íslensk stjórnvöld, ríkisstjórnin, já, við öll sem sitjum hér á Alþingi, að þurfa að íhuga mjög vel til hvaða aðgerða við getum gripið til að þetta fólk þurfi ekki að verða án atvinnu. Ég hef í sjálfu sér ekki lausnina í hendi hér og nú, enda aðeins nokkrir klukkutímar liðnir frá því að okkur bárust þessar fréttir. En þessa umræðu þurfum við öll að taka og við þurfum að taka hana strax. Við getum ekki lifað lengur við þessa óvissu.

Virðulegi forseti. Ég ætla að ljúka máli mínu og ítreka enn og aftur að nú reynir á sjálfstæði okkar Íslendinga. Það er komið nóg af því að við látum Bandaríkjamenn niðurlægja okkur í þessum samskiptum. Nú stöndum við ein en ég vona að það verði ekki lengi. Þó að Bandaríkjamenn séu farnir á brott þá eigum við enn þá vini og þeir eru í Evrópu.