132. löggjafarþing — 88. fundur,  16. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[15:42]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það var fallegt af hæstv. landbúnaðarráðherra að taka á sig sök, eða kannski væri réttara að kalla það mistök annarra ráðherra í ríkisstjórninni. Eða voru þetta mistök þeirra sem unnu frumvarpið og í hefur verið vitnað sem óskeikula engla við framlagningu málsins og í umræðunni um það?

Ég skil vel að jafndrenglyndur maður og hv. þingmaður og ráðherra, Guðni Ágústsson, skuli taka þetta á sig til að forða frekari vandræðum í málinu. Samt sem áður, hæstv. forseti, sýna mistökin að frumvarpið er engan veginn í þeim búningi sem hér hefur verið haldið fram. Stjórnarliðar hafa haldið því fram að málið sé vel unnið, vandað frumvarp og einungis um formbreytingu að ræða. Það átti engin sérstök áhrif að hafa, breytti engu um réttarstöðu o.s.frv.

Við lokaumræðu þessa máls er upplýst að menn hafa ekki staðið betur vaktina en svo að samkvæmt frumvarpinu færist vald á milli ráðuneyta, þ.e. varðandi árfarvegi, landbrot o.s.frv. Einnig er alveg ljóst að frumvarpið um vatnið mun skarast við lög um lax- og silungsveiði. Því er ekki vanþörf á, hæstv. forseti, að við í stjórnarandstöðunni gerum ykkur þann greiða að bjarga þessu máli fyrir horn með því að færa gildistímann aftur fyrir alþingiskosningar og setja nefnd í málið til að lagfæra málið í heild sinni. Það er samt sem áður ekki aðalatriði málsins.

Aðalatriðið snýr að almannarétti í þessu landi, þ.e. að horfa til auðlinda Íslands með það fyrir augum að reyna að tryggja þjóðinni í heild sem mestan rétt til auðlindanna án þess þó að eyðileggja nýtingarrétt fólks sem á jarðir eða koma í veg fyrir að landeigendur geti, eins og verið hefur, nýtt vatn sem um land þeirra rennur o.s.frv. Þetta er sama hugsunin og sett var inn í lögin um stjórn fiskveiða, þegar tekið var fram að fiskstofnar á Íslandsmiðum væru sameign íslensku þjóðarinnar. Tilgangurinn með setningu þeirra laga var, þótt við getum deilt um hvort árangur hafi náðst, að tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu og viðhalda náttúruauðlindinni sem fiskurinn í sjónum er til allrar framtíðar fyrir þjóðina og búsetu fólks í landinu. Þetta er auðvitað meginefni málsins og þess vegna tel ég að það hafi verið skynsamlegt hjá þinginu að taka þetta mál úr þeim farvegi sem það var í, um það höfðu í marga daga staðið hörkudeilur sem sýnilega hefðu haldið áfram. Það var skynsamlegt að gera þessa sátt um að gildistímaákvæði þessara laga kæmu eigi til framkvæmda fyrr en 1. nóvember 2007, þ.e. þegar nýtt Alþingi hefði komið saman eftir alþingiskosningar.

Það er ljóst, hæstv. forseti, að um áhersluatriði sem snúa að almannarétti og almannahagsmunum að því er varðar auðlindir sjávar og aðrar sameiginlegar auðlindir, sem tryggja þarf að lágmarksaðgang og festu fyrir alþýðu manna, verður auðvitað kosið í næstu alþingiskosningum. Það fer ekki á milli mála, hæstv. forseti. Mönnum kann að takast að lagfæra vatnalöggjöfina í nefndinni sem á að vinna að því máli að koma nýjum vatnalögum, sem ganga í gildi 1. nóvember 2007, til betri vegar auk þess að samræma þau öðrum lögum um verndun vatns, jarðrænar auðlindir o.s.frv. Hér hafa verið nefnd lög sem heyrt hafa undir landbúnaðarráðuneytið, um varnir gegn landbroti og lög um lax- og silungsveiði.

Ég vil einnig minna á að bændur við strendur landsins hafa löngum sótt eftir viðurkenningu á þeim rétti að þeir hefðu frjálsan aðgang að fiskveiðum frá jörðum sínum. Sá réttur finnst þeim hafa verið af þeim tekinn með setningu laganna um stjórn fiskveiða á sínum tíma. Það er réttur sem þeir sækja á að verði viðurkenndur og ég tel að þeir ættu að hafa.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta frumvarp við lok umræðunnar. Við erum búin að tala í marga daga og bráðum tvær vikur sem við höfum eingöngu haft þetta mál til umfjöllunar á Alþingi. Ég vil að lokum segja, hæstv. forseti, að það var skynsamleg niðurstaða hjá stjórnarandstöðunni að semja við ríkisstjórnarflokkana um þessa málsmeðferð þannig að menn kæmust til nýrra verka. Vonandi berum við gæfu til þess, það sem eftir er af þessu þingi, að vanda betur til verka en gert var varðandi vatnalög. Vonandi mun löggjöfin sem við munum fjalla um á komandi vikum og sem eftir lifir af þessu þingi verða betur úr garði gerð heldur en frumvarpið sem við ræðum um hér.

Hins vegar er ljóst, hæstv. forseti, að inn í þingið koma mál sem verða umdeild. Það er langur vegur frá því að allar deilur séu settar niður á þessu þingi með því að koma þessu máli í ákveðinn farveg utan þings, í nefndarstarf til endurskoðunar og vonandi til betrumbóta. Hér eiga auðvitað eftir að koma til umræðu mál sem geta valdið hörkudeilum og munu örugglega gera það.

Hæstv. forseti. Ég vona svo að niðurstaðan sem hér hefur fengist, um að fresta gildistöku þessara laga, verði til gæfu fyrir þjóðina varðandi þessa lagasetningu alla og niðurstaða nefndarstarfsins verði sú að réttur almennings verði virtur og nýtingarréttinum sett skynsamleg takmörk.

[Fundarhlé]