132. löggjafarþing — 88. fundur,  16. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[16:23]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Hér erum við að greiða að lokum atkvæði um vatnalög sem eru lokatörnin í þessum lögum í frjálshyggju- og einkavæðingarleiðangri Framsóknarflokksins sem er á fullri ferð í þessu frumvarpi. Hér er verið að einkavæða vatnið, svo sannarlega, þó svo að hæstv. iðnaðarráðherra reyni að telja fólki trú um annað. Þetta er auðvitað efnisbreyting á þeim gömlu lögum sem eru í gildi, alveg sama þó að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins tali um 15. gr. o.s.frv.

Við gildistöku þessara laga, sem verður vonandi aldrei, þurfum við að fara að greiða fyrir vatnið. Gjaldfrjálsum nýtingarrétti landsmanna lýkur ef þessi lög taka einhvern tíma gildi. Hann er numinn brott af framsóknarmönnum, ýtt áfram af einkaframtakinu í Sjálfstæðisflokknum sem vill fjárfesta í vatni. Hér hefur Framsóknarflokkurinn verið á þessari einkavæðingarleið. Sjálfstæðisflokkurinn er mjög ánægður með samstarfsflokkinn á þessari leið. Ég er óánægður með hann og þess vegna segi ég nei.