132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Lax- og silungsveiði.

607. mál
[16:50]
Hlusta

Gunnar Örlygsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni fyrir ræðu sína. Nú hafa þeir komið hér fram talsmenn Samfylkingarinnar og ég er þeim um margt sammála þegar kemur að þessu máli, þá sérstaklega er lýtur að 27. gr. frumvarpsins um veiðitæki og veiðiaðferðir.

Ég vil spyrja hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson út í annaðhvort veiðarfærastýringu eða eignarnám. Hver er afstaða Samfylkingarinnar til þess kafla? Nú þekkjum við það að útgerðarmenn og sjómenn í þessu landi þurfa að gangast við öflugri veiðarfærastýringu í sínum störfum daglega. Hólfum er lokað, ákveðin veiðarfæri eru bönnuð. Undir þessum reglum, sem falla undir lög um stjórn fiskveiða, þurfa útgerðarmenn og sjómenn að starfa alla daga ársins. Er það afstaða Samfylkingarinnar að um veiðarfærastýringu sé að ræða þegar hömlur eru settar á netaveiði eða eignarnám?

Ég á von á því, frú forseti, að umræðan einmitt um þessa 27. gr. muni að miklu leyti til fjalla um nákvæmlega þetta, hvort hér sé um eignarnám að ræða eða veiðarfærastýringu, og vildi ég nota tækifærið og spyrja hv. þingmann hver afstaða Samfylkingarinnar sé í þeim efnum.