132. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2006.

Staða efnahagsmála.

[14:10]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Með fullri virðingu fyrir þeim ágætu matsfyrirtækjum sem vitnað er til þá er það mat ríkisstjórnarinnar að ástand efnahagsmála sé gott hér á landi. Það er hins vegar rétt að það er mikill uppgangur, það er mikil atvinna í landinu og mikil uppbygging.

Hv. formaður Samfylkingarinnar talar um að ríkisstjórnin sé að færa einhverjum eitthvað á silfurfati. Hvað varðar þær stóriðjuframkvæmdir sem verið er að tala um um þessar mundir þá er það fólkið á Norðurlandi sem sækir á um það. Það er fólkið á Reykjanesi sem sækir á um það. Það er fyrirtæki sem starfað hefur í Hafnarfirði um áratugaskeið sem vill stækka. Það er ekki vegna þess að ríkisstjórnin sé að reyna að færa einhverjum eitthvað.

Ríkisstjórnin hefur fyrst og fremst lagt áherslu á að skapa hér almenn skilyrði og sem betur fer eru þessi skilyrði góð. Það er sóknarhugur í fólki allt í kringum landið og það er bjartsýni. Það má vel vera að einhverjir séu bjartsýnir um of, ég býst við því. Eins og stendur þá er rétt að verðbólga er meiri en menn hefðu óskað eftir en það verður líka að taka tillit til þess að hin samræmda verðbólga, ef við berum okkur saman við Evrópu, er aðeins rétt rúmlega 1% hér á landi á sama tíma og hún er rúmlega 2% í helstu viðskiptalöndum okkar. Ég tel að gengið hafi náð ágætu jafnvægi en það hefur verið helsta gagnrýnisatriði stjórnarandstöðunnar á undanförnum mánuðum að gengið hafi verið allt of hátt. Gengisvístitalan var fyrir stuttu síðan tæplega 119. Ég vænti þess að það sé í einhverju samræmi við það sem stjórnarandstaðan hefur m.a. verið að gagnrýna hér á undanförnum mánuðum.