132. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2006.

Vegabréf.

615. mál
[16:13]
Hlusta

Guðrún Ögmundsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Hér hefur hæstv. dómsmálaráðherra mælt fyrir mjög áhugaverðu máli varðandi vegabréfin og hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson hefur farið mjög vel yfir það líka þannig að það er ýmislegt sem er að skoða.

Ég vil aðeins bæta því við sem mér datt í hug þegar ég fór yfir þetta. Heimurinn fór náttúrlega á annan endann eftir 11. september 2001 þannig að það er kannski ekkert skrýtið þó að við þurfum að hugsa allt upp á nýtt. Hæstv. dómsmálaráðherra talaði um tölvulesnu vegabréfin og vegabréfin frá 1999, ég fékk mér tölvulesið vegabréf svo að ég gæti komist til Bandaríkjanna og er mjög ánægð með að ég get þá aðeins notað það áfram. En það kemur að því að ég þarf að fá mér þessa tegund af vegabréfi. Það má ekki gleyma því að þessi vegabréf eru talsvert dýr. Þetta er kostnaður fyrir fjölskyldur og sérstaklega má búast við að þau verði dýrari með hinum nýju örgjörvum sem í þau verða settir.

Þjóðskráin mun nú verða útgefandi og allt í lagi með það. Þá erum við alveg komin í hring. Það var nefnilega þannig áður fyrr að við sóttum um vegabréfin okkar á Lögreglustöðinni hér í Reykjavík og nú erum við komin þangað aftur. Ég hins vegar harma það, og ég veit að við munum fara yfir það í hv. allsherjarnefnd, að útlendingar og flóttamenn eru aðskildir og verða áfram hjá Útlendingastofnun, ég tala nú ekki um út frá þeim hugmyndum að Útlendingastofnun eigi að fara til Reykjanesbæjar. Ég átta mig ekki alveg á því af hverju sá hluti starfseminnar er tekinn út en við kannski fáum Útlendingastofnun á okkar fund til þess að fara yfir það af hverju það er gert, því að eftirlitið gæti líka — og ég tala nú ekki um allar upplýsingar úr Þjóðskránni og tenging Þjóðskrár og lögreglu. Það ætti algjörlega að vera tryggt að enginn fái vegabréf án þess að upplýsingar liggi fyrir og í rauninni er tenging milli þessara þriggja kerfa mjög skýr. Ég vildi því gjarnan að engin aðgreining væri í því og við værum öll á einum stað og úti á landi gæti fólk leitað til sýslumanna en ekki að það sé það mikið umhendis að Pólverjar á Ísafirði þurfi að tala við Útlendingastofnun í stað þess að tala við sýslumanninn þar. Það eru kannski svona núansar í þessu og er þá kannski eitthvað sem við munum skoða og laga.

Ágúst Ólafur benti jafnframt á 4. gr. og hæstv. dómsmálaráðherra gerði grein fyrir henni og því sem við erum núna að vinna með í hv. allsherjarnefnd varðandi sameiginlega forsjá. Við erum aðilar að samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og þar á meðal að koma í veg fyrir brottnám barna. En mér finnst heimurinn orðinn pínulítið, og játa það bara hér, of harður, að t.d. væri hægt að stoppa fólk af að fara erlendis í nám með börnin sín með sér og annað. Við höfum nú rætt það í hv. allsherjarnefnd en auðvitað þurfum við líka að koma í veg fyrir þetta brottnám og passa vel upp á þá þætti.

Það verður áhugavert að vinna málið áfram í hv. allsherjarnefnd.