132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Kadmínmengun.

572. mál
[12:38]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Fyrirspurn um kadmínmengun í Arnarfirði er beint til umhverfisráðherra. Þessi mál hafa áður verið til umræðu í hv. Alþingi og er fullt tilefni til þess að taka þau hér upp aftur. Það skiptir íbúa Bíldudals og Vesturbyggðar verulega miklu máli að aftur verði hægt að hafa not af þeim auðlindum sjávar sem þrífast í vistkerfi Arnarfjarðar en þar eru staðbundnir stofnar rækju og hörpuskeljar sem gætu skapað störf að nýju eins og áður var, áratugum saman.

Þetta mál er allt sérstakt vegna þess að eftir því sem ég veit best þá er þetta eini fjörðurinn á Íslandi þar sem veiðar hafa verið bannaðar á stofnum í lífríki sjávar vegna mengunar. Þess vegna er auðvitað full ástæða til þess að standa vel að rannsóknarþætti þessara mála til þess að átta sig á hvað hér er á ferðinni og eins til þess væntanlega að fá það fullrannsakað hvort mengunin er að breytast, vonandi að minnka, þannig að aftur sé hægt að hefja þessar veiðar. Ekki veitir nú af eins og atvinnuástandið er á Bíldudal. Ég veit að hæstv. umhverfisráðherra skynjar það vel enda veit ég að hæstv. ráðherra hefur búið úti á landi og þekkir aðstæður þar sem búið er nálægt firði og sjávarnytjar eru undirstaða atvinnulífsins. Þess vegna er þetta mál tekið hér upp aftur þrátt fyrir að það hafi verið rætt snemma hausts hér í hv. Alþingi en hæstv. umhverfisráðherra sagði síðast þegar þetta var rætt að einhverjar niðurstöður mundu liggja fyrir í upphafi þessa árs og nú eru þrír mánuðir liðnir af árinu og þess vegna er spurt:

1. Hvað líður niðurstöðum rannsókna sem gerðar voru árið 2004 á kadmínmengun í Arnarfirði?

2. Er fyrirhugað að veita fé til frekari rannsókna á kadmínmengun í lífríki Íslands? — Hún virðist alla vega sums staðar vera nokkuð há þó að hún nái ekki þeim mörkum sem eru í Arnarfirði.

Ég held að þetta mál skipti afar miklu og það megi ekki láta þetta dragast úr hömlu. Það verður að fá niðurstöðu í þetta, og eins og hæstv. ráðherra sagði hér á haustdögum þá verður spennandi að sjá niðurstöður úr þeim rannsóknum sem þegar hafa verið gerðar þegar þær liggja fyrir í byrjun þessa árs. Þess vegna tökum við þetta mál hér upp aftur og ég vonast eftir því að ráðherra geti gefið svör við því hvernig að þessu verður staðið.