132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Merking matvæla.

633. mál
[12:54]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Samkvæmt 15. gr. laga um matvæli, nr. 93/1995, skulu matvælaumbúðir merktar með nafni og heimilisfangi framleiðanda matvælanna eða dreifanda þeirra. Þá skal heiti vörunnar koma fram ásamt upplýsingum um innihald, geymsluskilyrði, geymsluþol og nettóþyngd eða lagarmál.

Um merkingu matvæla gildir einnig reglugerð nr. 503/2005, um merkingu matvæla, sem byggð er á tilskipunum og reglugerðum Evrópusambandsins sem teknar hafa verið inn í EES-samninginn. Þessi reglugerð gildir í dag um merkingu á öllum matvælum hér á landi, en auk hennar eru í gildi ákveðnar merkingar í sérreglugerðum eins og t.d. reglugerð um aldinsultur, ávaxtasafa, fæðubótarefni, hunang og ýmislegt fleira.

Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 503/2005, um merkingu matvæla, skal merking ekki vera blekkjandi fyrir kaupanda eða móttakanda, einkum að því er varðar sérkenni matvælanna, nánar tiltekið eðli þeirra, auðkenni, eiginleika, tegund, samsetningu, þyngd, geymsluþol, aðferð við gerð eða framleiðslu og svo uppruna. Varðandi uppruna segir í 8. tölulið 6. gr. reglugerðarinnar að upplýsingar um uppruna eða framleiðsluland skuli koma fram, ef skortur á slíkum upplýsingum gæti villt um fyrir neytendum hvað varðar réttan uppruna matvælanna. Þessi regla er þó mjög matskennd og getur verið erfitt að beita henni og hefur Evrópusambandið þess vegna sett sérreglur um upprunamerkingar á ákveðnum matvælum, þ.e. nautakjöti, ávöxtum og grænmeti.

Erfðabreytt matvæli, kúariða og mælingar á varnarefnum í ávöxtum og grænmeti hafa síðan ýtt enn frekar undir kröfur neytenda um að fá að vita hvaðan varan er upprunnin eða hvernig hún er framleidd. Almennt er við það miðað að haga setningu reglna um matvæli í samræmi við upptöku gerða í EES-samningnum. Dæmi eru þó um að tilefni þyki til að gera frekari kröfur, svo sem um gæði, öryggi eða merkingu. Vegna meginreglu samningsins um frjálst flæði vöru er skylt að tilkynna slíkar reglur í samræmi við lög um skipti á upplýsingum um tæknilegar reglur um vörur og farþjónustu, nr. 57/2000.

Það er til skoðunar að Ísland taki upp fleiri Evrópusambandsgerðir sem varða dýraafurðir, þar með talið um uppruna merkingar á nautakjöti. Enn sem komið er hefur ekki verið tekið til athugunar að setja sérstakar reglur um upprunamerkingar á öðrum vörum. Hins vegar má taka fram að í nýrri matvælalöggjöf Evrópusambandsins, þar sem kveðið er á um meginreglur og kröfur um matvæli, er m.a. kveðið á um að til staðar sé kerfi til að rekja feril matvæla allt að uppruna. Unnið er að upptöku þeirrar löggjafar í EES-samningnum.