132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Merking matvæla.

633. mál
[12:59]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir spurningar sínar, sem eru tímabærar, og ráðherranum fyrir svör. Ég held að þetta skipti okkur miklu máli og fyrir neytendur alla. Auðvitað er það þannig að reglur duga ekki nema á ákveðinn hátt. Vegna ræðu síðasta hv. ræðumanns verð ég að segja að það hlýtur að vera á valdi framleiðanda að merkja sína vöru betur. Við höfum rætt það nú í tíu, fimmtán ár að það gæti verið til hagsbóta fyrir íslenska bændur og neytendur að fá betur merkta vöru þaðan, jafnvel upplýsingar um það frá hvaða býli tiltekin vara kemur, eftir atvikum.

Um þær reglur sem við þiggjum að utan er það að segja að stundum er um það að ræða að hægt er að blekkja neytendur. Til dæmis er hægt að blekkja neytendur með of miklum upplýsingum eins og sést á upplýsingum um efnisinnihald sem eru orðnar svo ítarlegar að það skilur þær ekki nokkur maður nema að hann hafi sérstakt próf í þeim.

Svo held ég að það sé ástæða til að þakka ráðherra fyrir skýr og skjót svör í þessu efni. Því ég man ekki betur en að þessari fyrirspurn hafi verið dreift hér (Forseti hringir.) í gær eða fyrradag.