132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Eftirlit með staðsetningu sjúkraflugvéla.

544. mál
[14:00]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Skilyrði um staðsetningu sjúkraflugvéla er auðvitað sett í þessa samninga í þeim eina tilgangi að tryggja sem öruggasta möguleika þess að hægt sé að flytja sjúklinga innan tiltekinna tímamarka sem menn eru að reyna að setja sér varðandi flutninga og einnig með tilliti til landfræðilegra staðhátta. Þess vegna hafa sjúkraflugvélar verið staðsettar m.a. á Vestfjörðum, þ.e. til að geta brugðist við innan stutts tíma. Af því að áðan kom fram að það eigi að gefa skýringar ef út af er brugðið spyr ég hæstv. ráðherra hvort slíkar skýringar hafi komið fram og hvort hæstv. ráðherra hafi yfirlit yfir það hvaða ástæður eru taldar fram.