132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Endurskoðun laga um málefni aldraðra.

580. mál
[14:33]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Þetta mál er tvíþætt. Annars vegar grunnlífeyrir aldraðra sem þarf að hækka, ótekjutengdur grunnlífeyrir þarf að hækka, og hins vegar þarf að efla hjúkrunar- og umönnunarstarf.

Margar nefndir hafa starfað að þessum þáttum. Ég hef verið á þingi í sex ár og ég minnist þess að vitnað hefur verið í margar nefndir sem unnið hafa að þeim þáttum sem hæstv. heilbrigðisráðherra var að nefna. Í haust lá t.d. fyrir nokkurra ára gömul skýrsla sem sýndi að grunnur fjárveitingar til elli- og hjúkrunarheimila var allt of lágur og þurfti að bæta, að mig minnir, um 300 millj. kr. í grunninn. Þetta hefur legið fyrir en samt var ákveðið að skipa nýja nefnd til að athuga hvort þetta væri svo. Getur hæstv. heilbrigðisráðherra upplýst okkur hversu margar nefndir (Forseti hringir.) eru að störfum eða hafa verið að störfum varðandi málefni aldraðra á síðustu 5–10 árum? Nei, frú forseti, hér þarf bara að taka til hendi.