132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Endurskoðun laga um málefni aldraðra.

580. mál
[14:34]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur fyrir að bera upp þessa þörfu fyrirspurn og vil jafnframt taka undir orð hv. þm. Jóns Bjarnasonar. Áskorun frá eldri borgurum um endurskoðun laga á málefnum aldraðra er í sjálfu sér mjög eðlileg, sérstaklega með tilliti til þeirrar gífurlegu togstreitu sem virðist vera varðandi málefni þeirra. Þetta fólk skapaði það þjóðfélag sem við búum í og það er ósátt við stöðu sína í dag. Því er nauðsynlegt að haft sé meira samráð við það og hlustað á það.

Ég tel nauðsynlegt, frú forseti, miðað við þá miklu togstreitu sem er í gangi milli stjórnvalda og eldri borgara, annars vegar að endurskoða lögin og hins vegar að setja inn ákvæði um umboðsmann eldri borgara til að verja hag þeirra.