132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Lækkun raforkuverðs.

618. mál
[14:55]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir mjög skilmerkileg svör. Það kom fram í svari hennar að það mætti kenna breyttri skipan á raforkumarkaði um það að þær lækkanir sem lofað var við byggingu Norðuráls náðu ekki fram að ganga. Ég vona að hæstv. ráðherra haldi áfram á þeirri braut að svara skilmerkilega og segi okkur nú frá því hvað raforkuverð hefur hækkað mikið, þ.e. heildarpakki þeirrar raforku sem er á samkeppnismarkaði, sem er miklu minni hluti. Hingað til hefur hæstv. ráðherra alltaf svarað því til að eitthvað hafi hækkað þarna og lækkað á hinum staðnum en það væri gott að fá heildarmyndina. Ég er á því að það væri hollt fyrir umræðuna að hæstv. ráðherra gæfi skilmerkileg svör hvað það varðar. Því var lofað hér í umræðu um raforkuskýrsluna en því miður var (Forseti hringir.) ekki staðið við það. Það væri gott ef hæstv. ráðherra gæfi það upp í seinni ræðu sinni hvort von (Forseti hringir.) væri á skilmerkilegum svörum hvað það varðar.