132. löggjafarþing — 93. fundur,  27. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[21:19]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Herra forseti. Hér er verið að ræða um lagafrumvarp frá hæstv. iðnaðarráðherra eða ríkisstjórninni sem er um að stofna hlutafélag um Rafmagnsveitur ríkisins, þ.e. að háeffa Rafmagnsveitur ríkisins. Það er svo sem ekki nýtt mál. Oft hefur verið talað um þetta og stefnt að því. Meðal annars átti sá sem hér talar sæti í nefnd sem þáverandi iðnaðarráðherra, Jón Sigurðsson, skipaði og var einmitt falið að fara í gegnum lög um Rafmagnsveitur ríkisins með tilliti til þess að breyta því í hlutafélag. Ég man ekki nákvæmlega hvernig sú nefnd skilaði af sér en sá sem hér stendur var hlynntur því. Ég hef verið hlynntur því og sé ekki þá stóru ágalla að taka sum fyrirtæki sem eru í eigu ríkisins, 100% í eigu ríkisins, eins og Rafmagnsveitur ríkisins og breyta þeim í hlutafélag.

En ég verð þó að segja og verð að hafa fyrirvara á vegna þess að sporin hræða og ályktanir og tal t.d. sjálfstæðismanna um sum þessara félaga, sem ég í sjálfu sér get verið sáttur við að breyta í hlutafélag, tal sumra sjálfstæðismanna og forustumanna Sjálfstæðisflokksins er einfaldlega þannig að þeir geta hugsað sér að selja það þegar fram líða stundir. Sporin hræða í þeim efnum og þá verður maður ósjálfrátt frekar hræddur.

Þess vegna vil ég segja, virðulegi forseti, áður en ég fer lengra hvað þetta mál varðar, að mig undrar það að menn skuli taka þetta frumvarp og ætla að keyra það í gegn og gera Rafmagnsveitur ríkisins að hlutafélagi og væntanlega að samþykkja það síðar á þessu þingi áður en því lýkur í kringum 5. maí, frumvarp sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur flutt um stofnun opinberra hlutafélaga. Ég ætla að koma betur inn á það á eftir og bera saman þetta frumvarp og frumvarp sem hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er 1. flutningsmaður að, ásamt ýmsum fleiri þingmönnum Samfylkingarinnar, sem búið er að ræða hér og vísa til nefndar. Það frumvarp til laga er mjög vel gert, margfalt betra en frumvarpið sem iðnaðarráðherra hefur flutt. Vænti ég þess, ef ég man rétt, að það sé efnahags- og viðskiptanefnd sem taki þessi tvö frumvörp og komi með virkilega gott frumvarp hér til þings til samþykktar um stofnun opinberra hlutafélaga.

Þess vegna skil ég ekki af hverju við dokum ekki við og tökum opinberu hlutafélögin fyrst og breytum svo Rafmagnsveitum ríkisins yfir í opinbert hlutafélag. Það fyndist mér full ástæða til að gera og vil nota þetta tækifæri og spyrja hv. formann iðnaðarnefndar, Birki Jón Jónsson, hvort það hafi ekki komið til tals í stjórnarmeirihlutanum í iðnaðarnefnd að hafa þann háttinn á. Ef við samþykkjum þetta frumvarp um stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins verður það bara venjulegt hlutafélag en ekki opinbert hlutafélag, eins og ég hef gert að umtalsefni.

Mér hugnast það miklu betur, virðulegi forseti, hvað þetta varðar. Vegna þess að er ég til í að breyta sumum af þeim ríkisfyrirtækjum sem við höfum verið að breyta, eins og ég hef sagt áður, yfir í hlutafélag og leyfa þeim að reka sig í hlutafélagaformi með þeim kostum og nokkrum göllum sem því fylgir. En sum fyrirtæki vill maður alls ekki að verið sé að braska með eða selja og þau eigi bara að vera eins og þau eru. Má nefna ýmislegt í því efni.

Virðulegi forseti. Ég átti sæti í fyrrgreindri nefnd og út af fyrir sig er ég þess vegna ekki andvígur því að stofna hlutafélag um Rafmagnsveitur ríkisins. En ég ítreka að sporin hræða. Ég er svolítið hræddur út af þeim miklu breytingum sem við höfum verið að ganga í gegnum og hafa átt sér stað á raforkumarkaðnum. Ýmislegt í því breytingaferli hefur ekki gengið eftir eins og talað var um í hv. iðnaðarnefnd sem ég átti sæti í þegar þær miklu breytingar á raforkugeiranum áttu sér stað.

Ég minnist þess t.d. að þar var talað um í mesta lagi 1–2% hækkun á raforkuverði til almennings. Síðan hefur auðvitað allt annað komið í ljós og menn eru að sjá allt að 40% hækkun. Mér fannst áðan að hv. þm. Birkir Jón Jónsson væri farinn að viðurkenna að miklar hækkanir ættu sér stað þó það sé hjá tiltölulega fáum hluta Íslendinga. En það er jafnalvarlegt fyrir það og kannski er mesta hækkunin hjá þeim sem minnst máttu við því að fá á sig miklar hækkanir í þessum efnum. Á ég þá við bændur og íbúa í dreifbýli eða því sem skilgreint er sem dreifbýli, þ.e. litlu sveitarfélögin.

Því miður hefur það ekki gengið eftir og margt farið á allt annan veg en talað var um og ýmis gögn sem lögð voru fyrir iðnaðarnefnd sögðu til um. Það er vissulega miður að maður fari í hálfgerðan bakkgír út af því og spyrji: Hvað gerist með Rafmagnsveitur ríkisins ef við breytum þeim í hlutafélag? En ekki opinbert hlutafélag, eins og ég talaði um áðan, því miður. Hvað gerist þá? Ég minnist þess líka að ég hafði ákveðinn fyrirvara um skattlagningu orkufyrirtækja, líklega á síðasta þingi, vegna þess að sporin hræða. Ég held að við verðum að leyfa þessum miklu breytingum að ganga í gegn áður en við stígum ýmis önnur skref. Þetta vil ég segja almennt um málið, virðulegi forseti.

Þegar ég segi að ég geti ekki fengið mig til að vera á móti því að breyta Rafmagnsveitum ríkisins í hlutafélag, í 100% eigu ríkisins, þá segi ég það m.a. vegna þess að ég tók þátt í því, þá sem forseti bæjarstjórnar á Siglufirði, að semja við Rafmagnsveitur ríkisins árið 1991 um sölu á rafveitu og hitaveitu Siglufjarðar, ásamt Skeiðsfossvirkjun, að selja þessar miklu eigur til Rafmagnsveitna ríkisins á sínum tíma. Það var auðvitað mjög flókið mál hvernig það þurfti að ganga fyrir sig. Og er í raun og veru óeðlilegt að eitt fyrirtæki sem er í rekstri á markaði þurfi að ganga þá göngu sem þar þurfti að gera. Til dæmis þurfti að bíða eftir heimildum í fjárlögum, ég man ekki hvort það voru lánsfjárlög eða hvað þetta allt saman hét. Menn þurftu að ganga frá einu ráðuneyti til annars, frá einni stofnun til annarrar o.s.frv. Menn gengu má segja frá Pílatusi til Heródesar.

En þetta tókst. Ég hef áður sagt að ég hef ekki séð neina ókosti við að þessar veitur í heimabæ mínum væru í eigu Rafmagnsveitna ríkisins, nema síður væri. Ég held að menn séu almennt mjög ánægðir með þann rekstur í höndum Rariks eins og það hefur verið og vonandi verður það svoleiðis áfram.

Það má líka segja að nýleg dæmi hafa sýnt að Rafmagnsveitur ríkisins gátu ekki á jafnréttisgrundvelli keppt við aðra orkuveitu, ef svo má að orði komast, við kaup á ákveðinni hitaveitu norður í landi og þá á ég við hitaveitu Ólafsfjarðar. Vegna þess að Rafmagnsveitur ríkisins voru dálítið heftar í þeim efnum og misstu kannski þess vegna af því. Vonandi hefur það verið góð sala Ólafsfirðinga til Norðurorku og hitaveita Ólafsfjarðar verði þar rekin áfram á jafnhagkvæman og góðan hátt og hingað til hefur verið gert með sínum mjög svo lágu orkugjöldum, sem nágrannar þeirra öfunda þá mjög af. Það var sannarlega þannig og ég held ég geti fullyrt að Rafmagnsveitur ríkisins gátu ekki keppt á jafnréttisgrundvelli. Þess vegna var það sem bæjaryfirvöld á Ólafsfirði gátu ekki skapað smá kaupendamarkað og spennu utan um það og fengið alla til að bjóða í og séð hvað fengist hæst fyrir það. Það hefði verið auðveldara ef búið hefði verið að breyta Rarik yfir í hlutafélag eins og hér er gert er ráð fyrir.

En ég vil hafa allan fyrirvara á því, virðulegi forseti, þó að ég sé að tala hér og sé samþykkur því og greiði því væntanlega atkvæði, að breyta Rafmagnsveitum ríkisins í hlutafélag. Ég geri það með þeim fyrirvörum sem ég hef sett hér fram vegna hræðslu minnar. Sporin hræða. En ég vona að það verði til góðs. En ég ítreka, og það kom fram í stuttu andsvari mínu við hv. formann iðnaðarnefndar, að ég er þá ekki um leið að ljá máls á því að Rafmagnsveitur ríkisins verði seldar, hvorki meiri hluti þess eða 49,9% eins og ég var að reyna að fá fram í umræðu í stuttu andsvari í dag. Þó svo að meiri hlutinn væri í höndum ríkisins gætu komið þar inn hluthafar sem gerðu miklu meiri arðsemiskröfu en ríkið gerir í dag af sinni margafskrifuðu eign, ef svo má að orði komast, sem naut mikilla fjárveitinga úr ríkissjóði á sínum tíma til að byggja upp dreifikerfið eða sveitakerfið eins og það var kallað sem er svo auðvitað komið inn í efnahagsreikning fyrirtækisins, að ríkið fengi dágóðan pening fyrir það ef þeim dytti í huga að selja. Kaupandinn þyrfti þá að gera miklu meiri arðsemiskröfu sem mundi leiða til hækkunar orkuverðs. Því er ég algjörlega á móti, virðulegi forseti, þó ég telji að þetta sé hægt að gera.

Það kemur fram í gögnum, annaðhvort með þessu frumvarpi eða því frumvarpi sem ég vitnaði til áðan, sem hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir flytur um opinberu hlutafélögin, að nokkrum félögum, t.d. Orkubúi Vestfjarða og Hitaveitu Suðurnesja, hafi verið breytt yfir í hlutafélög. Þau eru í eigu þeirra sveitarfélaga áfram og Orkubú Vestfjarða í eigu ríkisins. En önnur félög sem var breytt, t.d. Íslenskir aðalverktakar, Áburðarverksmiðjan, Fjárfestingarbanki atvinnulífsins, Landsbankinn, Búnaðarbankinn og síðar Síminn, sem voru hlutafélagavædd eða háeffuð, eins og menn segja, voru seld í framhaldi af því.

Ég var ekki andvígur því að bankarnir væru seldir þótt alltaf megi deila um hvenær selja ætti til að ríkið fengi sem mest út fyrirtækinu. Kannski getur maður sagt þetta núna, þegar maður sér hinar ævintýralegu hækkanir sem orðið hafa á þeim hlutafélögum í framhaldi af því. En það var ekki eingöngu fyrir breytinguna heldur komu öðruvísi þenkjandi menn þar að. En nóg um það og aftur að þessu frumvarpi.

Virðulegi forseti. Ég sagði áðan að reynsla þeirra sem Rafmagnsveitur ríkisins hafa keypt, orkuveitna sem eru flestar hitaveitur en þó töluvert af rafveitum líka, dreifikerfum, hafi verið góð. Ég hugsa að afstaða þeirra til breytinganna hafi verið jákvæð þar sem Rafmagnsveitum ríkisins hefur verið mjög vel stjórnað. Rarik býr yfir hæfu starfsfólki, bæði í höfuðstöðvunum í Reykjavík og um allt land. Það er auðvitað stærsti parturinn af þeirri sátt sem ríkir um Rafmagnsveitur ríkisins og starfsemi þeirra. Ég vænti þess að svo verði áfram þótt háeff bætist aftan við og fyrirtækið verði rekið sem hlutafélag. En ég hygg að það muni heyrast hljóð úr horni ef ríkisstjórn, með eða án Framsóknarflokks, dettur í hug að ætla að selja hluti úr fyrirtækinu á komandi missirum. Ég hef reyndar þá skoðun, sem skiptir ekki máli í þessu samhengi, að Framsóknarflokkurinn verði ekki til að gera slíkt eftir eitt ár eða svo.

Virðulegi forseti. Ég vildi fara yfir það sem ég hefði viljað sjá gerast áður en Alþingi samþykkti lög um opinber hlutafélög. Ég vil fara aðeins yfir frumvarp sem hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er fyrsti flutningsmaður að, ásamt mörgum öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar eins og áður hefur komið fram.

En þar segir í 1. gr., með leyfi forseta:

„Opinbert hlutafélag merkir í lögum þessum félag sem íslenska ríkið eða sveitarfélag hefur sömu tengsl við og móðurfélag hefur við dótturfélag …“

Í frumvarpinu er einnig gert ráð fyrir að hlutur íslenska ríkisins í opinberu hlutafélagi verði ekki seldur nema fyrir liggi samþykki Alþingis. Þetta er mjög veigamikið atriði. Ég trúi ekki öðru en að um þetta gæti skapast mikil sátt á Alþingi, að það sé eðlilegt ef við stofnum opinbert hlutafélag, t.d. um Rafmagnsveitur ríkisins, þá þurfi Alþingi að að ákveða hvort eigi að selja það að hluta eða það allt saman.

Það kemur líka fram í þessu frumvarpi hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, að hægt sé að setja það inn að aukinn meiri hluta þurfi á Alþingi fyrir samþykki sölu. Auðvitað getur hið sama átt við um sveitarfélög líka, ef einhverjum fyrirtækjum sveitarfélaga er breytt í hlutafélög.

Síðast en ekki síst, virðulegi forseti, eiga alþingismenn rétt á að sækja hluthafafundi. En kannski er mest um vert að í opinberu hlutafélagi í eigu íslenska ríkisins skuli félagsstjórn og framkvæmdastjórn veita alþingismönnum upplýsingar um starfsemi félagsins og ákvarðanir sé eftir því leitað. Þessi réttur til upplýsinga er vel skýrður í frumvarpinu. Ég spyr, eins og ég hef áður gert, hv. formann iðnaðarnefndar hvort í stjórnarmeirihlutanum innan iðnaðarnefndar hafi ekki komið til tals að taka frumvarp viðskiptaráðherra mikið endurbætt í gegnum þingið. Þá ættum við lög um opinber hlutafélög og tækjum frumvarpið um Rarik þar á eftir. Af hverju er þessi röð höfð á?

Ég held að það hefði verið betra að hafa þann hátt á og ég trúi því að jafnvel hefði skapast meiri sátt um það. Það kann að vera svo að menn vildu að bæði ríkið og jafnvel sveitarfélögin tækju ýmsa starfsemi sína og breyttu í hlutafélagaform og breyttu á þann hátt með öllum þeim kostum sem því fylgja og nokkrum ókostum að vísu líka. En ýmsir kostir geta verið við það, með svona starfsemi og stjórnunarhætti. Menn geta t.d. gert slíkt við starfsemi á vegum sveitarfélaga. Virðisaukaskattur yrði þá bæði sem innskattur og útskattur. Fyrirtækin yrðu gerð virðisaukaskattskyld o.s.frv.

Ég hef áður nefnt að það gæti verið skynsamlegt fyrir sveitarfélög að fá heimild til að breyta áhaldahúsum sínum í opinber hlutafélög. Það gæti gert það auðveldara að bjóða út ýmsa þætti í rekstri, t.d. snjómokstur, viðhald á holræsakerfi, vatnskerfi eða hvað sem er. Mig vantar enn þá svar við því. Ég vænti þess að það komi á eftir.

Ekki má gleyma að um opinber hlutafélög hefur verið rætt í þinginu. Hv. þm. Mörður Árnason bar fram fyrirspurn til viðskiptaráðherra um afstöðu hans til opinberra hlutafélaga og um hvort viðkomandi ráðherra hygðist beita sér fyrir lagasetningu um það efni. Það kom fram í svari ráðherra að það væri ekki unnið á vegum ráðuneytisins. Hins vegar hefur verið sett í gír og búið til frumvarp sem flutt hefur verið en er ekki líkt því nógu gott. Það tekur ekki á nógu mörgu þáttum.

Áður hafði líka hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson og fleiri þingmenn Samfylkingarinnar margsinnis flutt frumvarp um breytingar á lögum um hluthafafélög þar sem lagt var til að bætt yrði inn í ákvæðum um upplýsingaskyldu hlutafélaga í eigu ríkisins til Alþingis. Í upphafi þessa þingvetrar boðaði Samfylkingin það sem eitt af þingmálum sínum að flytja frumvarpið sem ég hef gert að umtalsefni og mæli með, þ.e. frumvarpi um opinber hlutafélög.

Virðulegi forseti. Ég fer senn að ljúka ræðu minni um þetta mál en vil ítreka að ég hef ekki verið hræddur við að breyta ríkisfyrirtækjum eða stofnunum og gefa þeim möguleika á að reka sig í formi hlutafélags. En nú er ég þó dálítið hræddur við það, en kannski eru það sporin sem hræða. Sú breyting í raforkugeiranum sem hefur leitt til mikilla hækkana hjá töluverðum fjölda notenda, sama hvort sem það er hjá Rarik, Orkubúi Vestfjarða eða öðrum, er hrikaleg. Það hefur verið gert að umtalsefni.

Þingmenn Framsóknarflokksins hafa með iðnaðarráðherra í broddi fylkingar reynt að gera allt sem þeir geta til að andmæla því að hækkun hafi orðið og benda á aðra sem hafi fengið lækkun. Það kann vel að vera að svo sé en ekki verður hjá því litið að við höfum þegar undir höndum reikninga frá fjölmörgum aðilum, bændum, íbúum í smærri byggðarlögum og öðrum, þar sem þeir sýna fram á stórhækkun. Hækkun er vegna þessara breytinga sem gerðar voru og hefur ekki verið tekið á því máli, þrátt fyrir lítilsháttar aukið framlag til niðurgreiðslna. Auðvitað var hluti af því sú breyting sem iðnaðarráðherra beitti sér fyrir, er niðurgreiðsluþakið var lækkað úr 50.000 kílóvattsstundum niður í 35.000 kílóvattsstundir.

Þótt ég taki undir það sem hv. formaður iðnaðarnefndar var svo ánægður með áðan er hann nefndi að þetta niðurgreiðsluhlutfall hefði verið hækkað er rétt að hafa í huga, virðulegi forseti, að það var hækkað í 40.000 kílóvattsstundir. Eftir standa þá 10.000 kílóvattsstundir frá breytingunni úr 50.000 kílóvattsstundum niður í 35.000. Þessar breytingar hafa komið allra verst niður á bændum og íbúum lítilla byggðarlaga. Við sjáum auðvitað og höfum heyrt af og fengið að sjá — vonandi fleiri þingmenn en ég — reikninga þar sem munar mjög miklu, 20–40%, bara við að fara fyrir eitt fjall. Þar hef ég í huga dæmi um reikninga frá Ísafirði og Súðavík. Ég gæti tekið dæmi um það sem maður hefur séð frá Raufarhöfn, sem hefur verið tekið vel saman af þeim ágæta sveitarstjóra og sveitarstjórn, sem sýnt hefur fram á miklar hækkanir.

Það eru þessi spor sem ég tel að hræði. Hins vegar tel ég að þessi formbreyting á Rafmagnsveitum ríkisins, að leyfa þeim að fara í hlutafélagaform, muni ekki gera neitt verra. En ef hæstv. ríkisstjórn dettur í hug að breyta þessu, að selja hluta eða allt, þá er ég í sjálfu sér ósammála. Ég ítreka það, virðulegi forseti, sem ég hef sagt áður, að ég hefði viljað sjá lög um opinber hlutafélög verða að veruleika áður en að þessari lagasetningu kæmi og skil ekki enn hvers vegna svo var ekki.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum spyrja hv. þingmann, formann iðnaðarnefndar, Birki Jón Jónsson út í þá breytingartillögu sem fulltrúar Samfylkingarinnar í iðnaðarnefnd, hv. þm. Jóhann Ársælsson, Helgi Hjörvar og Katrín Júlíusdóttur, flytja við 3. gr. Breytingartillagan er sú að fjármálaráðherra fari með eignarhlut ríkisins í Rafmagnsveitum ríkisins hf., eða Rarik hf., í stað iðnaðarráðherra. Hver er afstaða Framsóknarflokksins í því máli? Ég fyrir mitt leyti held að það sé réttara að fjármálaráðherra fari með þennan eignarhlut. En ég vænti þess að heyra skýringu Framsóknarflokksins á því, þ.e. hvort þeir styðja þá hugmynd. Af hverju hafa menn ekki sett slíkar hugmyndir fram eða er þetta átakamál milli ráðuneyta. Hér eru átök milli ráðherra Framsóknarflokksins, hugsanlega við ráðherra Sjálfstæðisflokksins. En síðast urðum við vitni að því, í vatnalögunum, að iðnaðarráðherra seildist inn í málefni landbúnaðarráðherra. Það kom fram við lok þeirrar umræðu á skemmtilegan hátt, þegar hæstv. landbúnaðarráðherra kom í ræðustól og lýsti yfir öllum þeim mistökum sem þar höfðu átt sér stað. Spurningin er hvort hér séu enn ein mistökin á ferðinni, gagnvart 3. gr., að iðnaðarráðherra fari með þennan eignarhlut í stað fjármálaráðherra?

Hin spurning mín, virðulegi forseti, til hv. formanns iðnaðarnefndar er: Af hverju eru opinberu hlutafélögin ekki tekin í gegn fyrst og lög samþykkt um þau og Rafmagnsveitum ríkisins síðan breytt í opinbert hlutafélag.