132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Endurnýjun Herjólfs.

513. mál
[12:31]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Þegar horft er til langs tíma hljóta jarðgöng að vera sá kostur sem menn horfa sterkast til. Það er að vísu ekki alveg ljóst hversu mikið þau muni kosta. Það þarf að skoða mjög vel kostnað við jarðgöngin og það þarf að ganga frá því hvort það sé jarðfræðilega tryggt að gera slík göng. Margt bendir til að svo sé.

Við þingmenn Samfylkingarinnar höfum alltaf tekið mjög sterklega undir með þeim heimamönnum og öðrum sem hafa rætt þann möguleika sem í jarðgöngum felst. Ég sakna þess auðvitað að hæstv. samgönguráðherra skyldi ekkert reifa þann möguleika í ræðu sinni svo nokkru næmi. Við hljótum að gera þá kröfu til hæstv. ríkisstjórnar að hún hafi einhverja sýn til framtíðar. Svo virðist í þessu máli sem ríkisstjórnin hafi ekki mikinn áhuga á því að kanna jarðgöng til Vestmannaeyja og fyrir hönd Vestmannaeyinga og velunnara þeirra finnst mér það auðvitað miður. Ég tel að það sé kostur sem menn þurfi að taka miklu alvarlegar en gert hefur verið til þessa og vænti þess að hæstv. ráðherra reifi þetta í svari sínu á eftir.