132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Aðstaða farþega á Egilsstaðaflugvelli.

518. mál
[12:50]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa fyrirspurn sem sett er fram og eins svar hæstv. ráðherra. Miðað við þær stórframkvæmdir sem nú eru fyrir austan er það auðvitað mjög sérkennilegt að við skulum ræða núna árið 2006 nauðsyn á því að stækka flugstöðina á Egilsstaðaflugvelli og ætla að fara að hefja framkvæmdir í haust. Þetta er eitt af því sem við áttum að vera búin að gera áður en þær stórframkvæmdir hófust.

Það er svo margt, virðulegi forseti, sem hefur setið eftir frá hendi ríkisvaldsins hvað þetta varðar. Nú berast neyðaróp að austan úr heilbrigðisþjónustunni. Þar vantar peninga vegna aukinna umsvifa og reksturs. Það fjármagn hefði átt að vera búið að tryggja áður. Virðulegi forseti. Ég fagna því sem á að fara að gera á Egilsstaðaflugvelli. Betra er seint en aldrei.

En mig langar að spyrja hæstv. samgönguráðherra út í það ófremdarástand sem er við ferjuhöfnina á Seyðisfirði. Þar hefur líka verið bankað á dyr samgönguyfirvalda um að gera þær endurbætur sem sannarlega verður að gera. Hvernig stendur það mál? Má líka vænta ákvörðunar um það á næstu mánuðum?