132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Stefna ríkisstjórnarinnar í málefnum Háskólans á Akureyri.

317. mál
[13:48]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Við gerð síðustu fjárlaga var mikil umræða um fjárhagsmál Háskólans á Akureyri. Það fór nokkur vinna í að greina þá stöðu og hæstv. ráðherra og ríkisstjórnarflokkarnir hafa brugðist við því með því að auka fjárframlög til Háskólans á Akureyri sem munu efla starfsemi skólans til muna. Meðal annars verði boðið upp á framhaldsnám í lögfræði næsta haust þannig að Háskólinn á Akureyri er að stækka og dafna undir forustu núverandi ríkisstjórnarflokka. Það er óumdeilt hvað þessi merka háskólastofnun hefur gert fyrir Akureyri og landsbyggðina alla. Háskólinn á Akureyri mun í framtíðinni, af því að það er verið að kalla eftir stefnu ríkisstjórnarflokkanna, gegna lykilhlutverki í uppbyggingu háskólamenntunar á landsbyggðinni. Hann hefur gegnt lykilhlutverki hvað það varðar og það er stefna núverandi stjórnarflokka að efla þennan skóla enn frekar og allar áætlanir benda til þess.