132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Stefna ríkisstjórnarinnar í málefnum Háskólans á Akureyri.

317. mál
[13:58]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Við ætlum að halda áfram að byggja upp háskólastarfsemina á Akureyri með myndarbrag og með metnaðarfullum hætti. Hér koma menn og tala um hvað allt sé svo frábært í kringum háskólastarfsemina fyrir norðan, sem það og er. Hér tala menn um jákvæða þróun varðandi byggðamál, jákvæða þróun og jákvæð áhrif uppbyggingar Háskólans á Akureyri. Við erum að tala um uppbyggingu, við erum að tala um þenslu, útþenslu, jákvæða útþenslu háskólastarfsemi á Akureyri. Þetta gerist ekki af sjálfu sér. Fjölgun nemenda um 130% tæplega á fimm árum gerist ekki af sjálfu sér. Hún kostar heilmikið fjármagn og við Íslendingar ákváðum það á sínum tíma að við mundum ekki fara sömu leiðir og aðrar þjóðir sem hafa staðið frammi fyrir þenslu í nemendafjölgun, þ.e. að skera niður nemendaframlögin, heldur höfum við sérstaklega fjárfest í menntun og við höfum aukið framlög til menntamála svo um munar á síðustu árum. Við erum að fara í þann flokk sem við viljum vera í, meðal fremstu þjóða innan OECD-ríkjanna og það munu nýjustu tölur frá Hagstofunni sýna.

Við erum á góðri leið með að byggja upp háskólastarfsemina en við megum heldur ekki gleyma því að nú er í rauninni komið næsta skref okkar Íslendinga varðandi útþenslu á sviði háskólamála. Við ætluðum okkur að fjölga háskólanemum og okkur tókst það. Það er rangt sem haldið var hérna fram af hálfu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar að við hefðum ætlað að fjölga nemum og ekki tekist það. Við fjölguðum nemum og ætluðum að gera og okkur hefur tekist það, m.a. út af því að við höfum stutt við bakið á opinberum skólum sem og einkaskólum. Það eru nöturlegt að heyra skilaboð sem skólar eins og Bifröst fá héðan af hinu háa Alþingi vegna þess að þeir leyfa sér að auka námsframboðið.

Ég vil líka geta þess að það er sama framlag sem fylgir fjarnemum sem staðbundnum nemum. Að segja annað er beinlínis rangt, eins og kom fram í máli hv. þm. Önnu Kristínar Gunnarsdóttur. Að sjálfsögðu er það sama greitt fyrir hvern nema, greiðslurnar eru miðaðar við þreyttar einingar í háskólanámi. (Forseti hringir.) Þannig höfum við staðið að þessu og við ætlum, frú forseti, að halda áfram að byggja upp af myndarbrag háskólastarfsemi um allt land.