132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Jarðskjálftaupplýsingar í Ríkisútvarpinu.

603. mál
[14:45]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir svörin. Ég fylgdist aðeins með þessu máli þann dag sem jarðskjálftinn varð einmitt vegna þess að hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson tók þetta upp í óundirbúinni fyrirspurn en þá hafði verið sagt frá þessu á öllum þeim stöðum sem menntamálaráðherra upplýsti hér áðan.

Þegar um svona mál er að ræða þarf að meta það í hverju tilviki, það er fréttamannanna hjá útvarpinu að meta það í hverju tilviki, hvernig hæfilegt er að segja frá. Það á ekki að segja frá tiltölulega litlum, vægum jarðskjálfta eða öðrum náttúruhamförum með þeim hætti að fólk sé sett í spennu, ugg og ótta. En það á auðvitað að gæta þess að fréttaflutningur sé þannig að menn viti af.

Ég tel, að fengnum þessum upplýsingum, að fréttamenn Ríkisútvarpsins hafi staðið sig óaðfinnanlega í þessu máli og mér finnst skrýtið að menntamálaráðherra skuli ekki taka undir það.

Rétt er hins vegar að vekja athygli á því að eftir að sú háeffun hefur farið fram sem menntamálaráðherra vill er Ríkisútvarpinu ekki skylt að svara þeim (Forseti hringir.) spurningum sem hv. þingmaður bar hér eðlilega fram.