132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Gamla héraðsskólahúsið á Laugarvatni.

632. mál
[15:09]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ísólfur Gylfi Pálmason) (F):

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn minni til hæstv. menntamálaráðherra. Laugarvatn er eitt merkasta mennta- og menningarsetur landsins. Þangað hefur ungt fólk úr öllum landshlutum sótt sér menntun og þroska í gegnum tíðina. Þar dvöldu einnig einir fremstu listamenn þjóðarinnar á fyrri hluta síðustu aldar til listsköpunar svo sem Halldór Kiljan Laxness, Jóhannes Kjarval og fleiri svo dæmi séu nefnd.

Gamla héraðsskólahúsið er í raun tákn fyrir alþýðumenntun og þann stórhug sem ríkti á Íslandi þegar Jónas Jónsson frá Hriflu og aðrir kyndilberar og aflvakar alþýðufræðslu lyftu hér grettistaki til fræðslu, menningar og menntamála á Íslandi. Einn merkasti arkitekt landsins, Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins, teiknaði skólann og við teikningu hússins sótti hann hugmyndir sínar í gömlu burstabæina eins og reyndar í margar byggingar sem hann teiknaði. Héraðsskólahúsið var tekið í notkun árið 1928.

Gamla héraðsskólahúsið á Laugarvatni má muna sinn fífil fegurri. Um áratugaskeið hefur þessi merkilega bygging verið í skammarlegri niðurníðslu. Hins vegar virðast bjartari dagar fram undan og er það vel. Afar brýnt er að taka verulega til hendinni og varðveita þetta merkilega hús og þær menningarminjar sem á Laugarvatni eru enda er húsið friðað að utan ásamt stigagöngum, svo merkilegt þykir það út frá menningarsögulegu sjónarmiði.

Brýnt er að verja árlega sambærilegri upphæð og nú hefur verið ákveðið að gera til þess að viðhalda þessu húsi. Auk þess er nauðsynlegt að finna húsinu viðeigandi hlutverk. Halldór Páll Halldórsson skólameistari og skólanefnd Menntaskólans á Laugarvatni hafa bent á mjög margar merkilegar hugmyndir hvað þetta varðar því auðvitað er mjög brýnt að það verði líf í þessu húsi áfram eins og var um árabil og er reyndar enn þá, en það þyrfti að glæða húsið enn þá meira lífi en nú er.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns beini ég fyrirspurn minni til hæstv. menntamálaráðherra og spyr:

1. Hvernig er gamla héraðsskólahúsið á Laugarvatni nýtt og hvaða hugmyndir eru uppi um notkun þess í framtíðinni?

2. Er fyrirhugað að leggja fé í endurnýjun og viðhald hússins? Ef svo er, hve mikið?

Má treysta því að það verði haldið áfram að viðhalda þessari merkilegu byggingu?