132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Flutningur verkefna í heilbrigðisþjónustu út á land.

648. mál
[15:25]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Hér er spurt: „Hvaða verkefni og hve mörg störf á vegum heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og undirstofnana þess hafa verið flutt frá höfuðborgarsvæðinu út á land sl. 10 ár.“

Því er til að svara að á undanförnum árum hafa átt sér stað umfangsmiklar breytingar á skipulagi heilbrigðisþjónustunnar utan höfuðborgarsvæðisins. Í kjölfar sameiningar sveitarfélaga á Vestfjörðum voru Fjórðungssjúkrahúsið á Ísafirði og Heilsugæslustöðin á Ísafirði sameinuð öldrunarstofnunum og heilsugæslustöðvum á Flateyri og Þingeyri undir nafninu Heilbrigðisstofnun Ísafjarðarbæjar sem tók til starfa árið 1998. Má segja að þetta hafi verið upphaf sameiningar stofnana á ákveðnum landsvæðum sem síðan hefur verið fylgt eftir í flestum landshlutum.

Í dag eru alls starfræktar 15 slíkar stofnanir á landsbyggðinni. Auk Vestfjarða hafa víðtækustu sameiningar heilbrigðisstofnana átt sér stað á Austurlandi, Norðurlandi eystra, Suðurlandi og Suðurnesjum. Nú er unnið að frekari sameiningu á Vesturlandi og Norðurlandi vestra. Enn fremur er í væntanlegu frumvarpi til heilbrigðislaga gert ráð fyrir að landinu verði skipt upp í sjö heilbrigðisumdæmi og er gert ráð fyrir að ein heilbrigðisstofnun í hverju umdæmi muni verða þungamiðja heilbrigðisþjónustunnar á svæðinu.

Þessar breytingar hafa stuðlað að ákveðinni hagkvæmni í rekstri heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni en jafnframt orðið til þess að styrkja þær á allan hátt, m.a. faglega. Ég vil nefna hér að heilbrigðisþjónustan úti á landi og þjónustan sem við veitum öldruðum er afar góð og m.a. talsvert betri gagnvart öldruðum og hjúkrun aldraðra en á höfuðborgarsvæðinu. Stærstu vinnustaðirnir á mjög mörgum stöðum úti á landsbyggðinni eru heilbrigðistengdir. Lögð hefur verið áhersla á það í gegnum árin að tryggja stöðuga heilbrigðisþjónustu um allt land. Ég tel því, virðulegur forseti, að heilbrigðisþjónustan sé að vissu leyti mikið landsbyggðarmál. Fjöldi starfa tengist heilbrigðisþjónustunni og þetta eru störf sem oft og tíðum eru frekar hátt launuð í þessum samfélögum þannig að heilbrigðisþjónustan er á margan hátt mikilvægt byggðamál.

Ég vil líka geta þess að Miðstöð sjúkraflugs hefur verið komið upp á Akureyri og sömuleiðis hefur Sjúkraflutningaskólinn verið færður þangað þannig að sú starfsemi hvor tveggja tengist þessu talsvert, bæði Miðstöð sjúkraflugs og Sjúkraflutningaskólinn.

Einnig er spurt: „Er á döfinni að flytja fleiri verkefni á vegum ráðuneytisins frá höfuðborgarsvæðinu?“

Því er til að svara að á þessari stundu eru ekki uppi sérstök áform um að flytja einstakar stofnanir frá höfuðborgarsvæðinu út á land en hins vegar má vel vera að svo verði í ljósi framfara í upplýsingatækni og fleiri þátta að einhverjar stofnanir eða einstök svið þeirra verði flutt út á land en það er ekkert sem ég get nefnt á þessari stundu, en að sjálfsögðu munum við hlusta á allar góðar hugmyndir.

Ég ítreka að heilbrigðisþjónustan er að vissu leyti byggðamál, við erum að þjónusta fólk sem á vissulega rétt á þeirri þjónustu, en þetta eru stöðug störf og góð störf og að mörgu leyti frekar vel launuð.