132. löggjafarþing — 96. fundur,  29. mars 2006.

Geðheilbrigðisþjónusta barna og unglinga.

[16:00]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Sf):

Frú forseti. Það ber að þakka hv. þm. Þuríði Backman fyrir að efna til þessarar utandagskrárumræðu. Geðheilbrigðisþjónusta barna og unglinga á Íslandi er ekki ásættanleg í dag. Þetta er enn og aftur spurning um forgangsröðun hjá núverandi ríkisstjórn. Einkavæðing, stóriðja og sendiráð eru yfirleitt efst á lista í stað þess að taka til hendinni hér heima og þá fyrst og fremst í heilbrigðismálum, málefnum fatlaðra og geðheilbrigðismálum barna og unglinga.

Í frétt á heimasíðu Landspítala – háskólasjúkrahúss þann 12. maí 2004 kemur fram að samkvæmt áætlun gæti viðbótarhúsnæði barna- og unglingageðdeildar verið tilbúið til notkunar um mitt ár 2006. Ekki hefur það ræst og ekki er að heyra, miðað við umræðuna hér í dag eða svör ráðherra, að það sé að gerast á næstunni. Almenningur hefur sýnt þessu skilning og mikinn áhuga eins og sést þegar farið er yfir listann með þeim aðilum sem gefið hafa fé til verkefnisins, hálf önnur milljón til BUGL með styrktartónleikum, foreldrafélag færir gjafir, Félagsstofnun stúdenta, Gámaþjónustan, Skeljungur, Kögun, Lions-menn. En ekkert gerist. Það er spurning hvort menn séu að bíða eftir Jóhannesi í Bónus til að þetta fari af stað.

Frú forseti. Það þarf að skoða fleira en BUGL til að bæta geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga. Þangað fara alvarlegustu tilfellin en vegna vægari tilfella getur dugað sú þjónusta sem er í almannakerfinu, þ.e. heilbrigðis-, félags- og skólakerfinu, en það þarf að samþætta þjónustu og meðferðarúrræði. Hægt er að finna tillögur að lausnum í því sambandi í skýrslu sem ráðherra lét vinna og vitnaði til áðan, Samhæfing í málefnum barna og unglinga með geðraskanir. Frú forseti. Þessari skýrslu var skilað 31. ágúst 2004. Þetta er góð skýrsla með góðum tillögum að úrbótum en ekkert hefur gerst. Enn og aftur virðist það gerast, sem margoft hefur verið nefnt hér, að menn láti vinna svona skýrslur og telji að þá séu þeir lausir (Forseti hringir.) allra mála.